Brosandi Beethoven tónleikar í Glerárkirkju
Laugardagskvöldið 17. janúar kl. 20 verður Hljómsveit Akureyrar með áhugaverða og óvenjulega Beethoven-tónleika í Glerárkirkju. Aðgangur er ókeypis en tekið verður við frjálsum framlögum til styrktar Píeta samtökunum.
Yfirskrift tónleikanna er Brosandi Beethoven tónleikar sem er kannski dálítil þversögn, eins og hljómsveitarstjórinn Michael Jón Clarke útskýrir: „Að þetta sé kallað Brosandi Beethoven er náttúrlega dálítið skrítið, því hann brosti ekki mikið og engin mynd til af honum brosandi,“ segir Mikki kankvís í spjalli við akureyri.net. „En hugmyndin með þessum tónleikum er að sýna bjartsýnustu og fallegustu hliðina af verkum Beethovens og meðal annars erum við með glænýjar útsetningar af þekktum verkum hans, sem hafa ekki heyrst áður,“ bætir hann við.
Einleikarinn og einsöngvarinn Akureyringar
Auk Michaels Jóns, sem stjórnar hljómsveitinni, mun Alexander Kristjánsson leika einleik á píanó og Margrét Árnadóttir syngja einsöng. „Alexander er tónlistarmaður alinn upp á Akureyri og Margrét er starfandi hér. Hún var í skóla á Akureyri á sínum tíma og byrjaði að læra söng hér,“ segir Michael.
Michael Jón segir að hljómsveitin muni ekki leika heilar sinfóníur á þessum tónleikum en boðið verði upp á mikið og breitt sýnishorn af Beethoven. „Þetta eru tónverk sem margir þekkja. Við erum með átta verk en ekkert þeirra er lengra en svona tíu mínútur. Svo endum við á smávegis klikkun eða brjálæði, sem ég ætla ekki að segja frá. Það verður rúsínan í pylsuendanum og mun koma fólki á óvart,“ segir hann leyndardómsfullur.
Tilgangur tónleikanna er að safna fyrir Píeta samtökin
Michael Jón segir að þetta sé mjög flott prógramm og að aðgangur sé ókeypis. „En aðalmálið er að við erum að safna fyrir Píeta samtökin,“ segir hann. Við innganginn verður tekið við frjálsum framlögum og bæði hægt að nota reiðufé og kort til þess. Michael Jón segir að ekki veiti af á þessum tímum sem nú eru að veita stuðning til þeirra sem líður illa. „Við verðum með bjartsýnis- og gleðitónlist og söfnum fyrir þetta mjög, mjög mikilvæga verkefni,“ segir hann með áherslu. Sjá nánar um Píeta samtökin aftast í þessari frétt.
Hljómsveit Akureyrar er sinfóníuhljómsveit fyrir áhugafólk, sem sett var á laggirnar árið 2023, og hefur áður ráðist í metnaðarfull verkefni. „Að þessu sinni erum við rúmlega 40 og með næstum öll hljóðfæri, þannig að þetta er með stærri hljómsveitum sem heyrist. Fáum fullt af fólki að sunnan sem kemur sérstaklega norður til að gera þetta og ég get lofað því að þetta verður rosalega skemmtilegt,“ segir Mikki að lokum, rétt áður en hann þarf að þjóta á hljómsveitaræfingu til að fínpússa prógrammið.
- Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.
- Píeta samtökin reka hjálparsíma allan sólarhringinn, alla daga ársins. Símanúmerið er 552-2218.
- Píeta veitir gjaldfrjálsa meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu eða sjálfsskaða, viðtöl og stuðning við aðstandendur þeirra og aðstandendur sem hafa misst.
- Meðferðaraðilar Píeta eru allir með viðurkennt starfsleyfi landlæknis á sviði geðheilbrigðis.