Brosað mót sólu og svörtu malbikinu

Sumarið er tíminn, var eitt sinn sungið; það á til dæmis við um malbikunarflokka, sumarið er tími þeirra og hugsanlega fátt sem fangar góðviðrisstemningu betur en ungir menn, berir að ofan við malbikun! Akureyri.net rakst á slíkan flokk á Borgarbraut og myndin ætti að staðfesta veðurblíðuna sem leikið hefur við Akureyringa og aðra Eyfirðinga í dag: hitinn er rúmlega 20 stig og himininn heiður og blár.
Flokkurinn, frá Malbikun Akureyrar, hófst handa um áttaleytið í morgun neðst í götunni, við hringtorgið norðan Glerártorgs, og hefur mjakast upp götuna síðan. Leiðarendi í dag eru mót Borgarbrautar og Skarðshlíðar en þráðurinn verður tekinn upp á ný í fyrramálið þegar haldið verður niður í móti; frá sömu gatnamótum og niður að áðurnefndu hringtorgi.
Leiðin upp Borgarbraut er eðlilega lokuð þar til í kvöld og ekki verður hægt að aka niður götuna frá því snemma í fyrramálið þar til annað kvöld.
Strákarnir brostu sínu breiðasta í dag enda ekki annað hægt í þessu dásemdar veðri og þeir ökumenn bæjarins sem leggja leið sína upp Borgarbraut á morgun brosa án efa líka, óháð dyntum veðurguða, því sennilega gleður ekkert fágaða ökumenn meira en nýlagt, rennislétt malbik.