Breytt nafn sparisjóðs – 179 milljóna hagnaður

Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Þingeyinga var 226 milljónir króna fyrir skatta á síðasta ári – hagnaður eftir skatta var 179 milljónir króna. Þetta kom fram á aðalfundi sparisjóðsins sem haldinn var 28. apríl síðastliðinn.
„Um síðustu áramót voru heildareignir sparisjóðsins 14,7 milljarðar króna og hafa aukist um 1.553 milljónir á milli ára. Innlán voru á sama tíma um 12,8 milljarðar. Eigið fé sparisjóðsins var 1,5 milljarður í árslok og lausafjárstaða er sterk,“ segir í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða.
Á aðalfundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að breyta nafni sjóðsins úr Sparisjóði Suður-Þingeyinga í Sparisjóður Þingeyinga þar sem það þykir meira lýsandi fyrir starfssvæði sjóðsins.
Á aðalfundinum var tilkynnt að Sparisjóðurinn muni styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga um fjórar milljónir króna og einnig verða heilsugæslustöðvar HSN (Heilbrigðisstofnunar Norðurlands) styrktar um fjórar milljónir til tækjakaupa.
Í stjórn sparisjóðsins voru kjörin Bergþór Bjarnason, Dagbjört Jónsdóttir, Eiríkur H. Hauksson, Margrét Hólm Valsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir. Varamenn, Elísabet Gunnarsdóttir og Pétur B. Árnason.