Fara í efni
Mannlíf

Brettagleði í góða veðrinu – MYNDIR

Myndir: Þorgeir Baldursson

Vel heppnað snjóbrettamót fór fram við Skautahöllina á Akureyri í gærkvöldi. Þangað mættu rúmlega 100 manns, þátttakendur og áhorfendur, og skemmtu sér konunglega. Jörð er auð en bak við húsið blasti engu að síður við fólki afbragðs aðstaða til brettaiðkunar; snjór var fluttur á staðinn og öflugur hópur þjálfara kom saman til þess að útbúa fjölbreytt svæði þar sem stórir sem smáir, byrjendur sem lengra komnir, gætu leikið sér.

Rúmlega 50 krakkar og fullorðnir mættu til að taka þátt, þar af 10 keppendur af suðvestur horninu. Akureyrsku brettabræðurnir kunnu, Eiki og Halldór Helgasynir, mættu á svæðið ásamt fjölskyldum og veittu innblástur, eins og það er orðað á Facebook síðu brettadeildar Skíðafélags Akureurar. „Fjölmargir aðrir mættu og mikið knúsast, spjallað og gömul kynni endurnýjuð. Veðrið lék við hópinn og nokkur snjókorn féllu,“ segir þar.

Þorgeir Baldursson mætti með myndavélina og hér má sjá brot af því besta sem finna mátti vélinni að móti loknu.

Halldór og Eiki Helgasynir fylgdist grannt með gangi mála í gærkvöldi.

Jökull Bergmann sigraði í karlaflokki í gær og Alís Helga Daðadóttir í kvennaflokki. „Alís Helga átti líka besta „dettið“ og Sigurður Ægir karlamegin. Allir þessir keppendur eru félagar í SKA.“ Vegleg verðlaun voru veitt frá Kulda, Brettaparkinu og Skógarböðunum, segir á síðu brettadeildarinnar. „Fjölmörg önnur verðlaun voru veitt fyrir vel heppnuð trix sem var útdeilt á meðan á viðburðinum stóð að „Street Jam“ hætti.“

Tómas Orri Árnason var mótstjóri og með honum framkvæmdastjóri mótsins Kolbeinn Finnsson.