Fara í efni
Fréttir

Brautskráning VMA við óvenjulegar aðstæður

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, við brautskráninguna í Hofi í dag.

Níutíu og fjórir nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Hofi í dag. Brautskáningin var um margt óvenjuleg vegna sóttvarnareglna. Brautskráningarnemum var skipt í þrjá hópa og voru á þriðja tug nemenda í hverjum hópi en á milli sextíu og sjötíu nemendur mættu til brautskráningarinnar. 

Í upphafi ávarp síns sendi Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari hlýjar kveðjur til nemenda skólans frá Seyðisfirði og Seyðfirðinga allra vegna þeirra náttúruhamfara sem þar hafa orðið síðustu daga,“ sagði skólameistari.

„Hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Það er einmitt á stundum sem þessum sem við finnum fyrir vanmætti okkar gagnvart náttúrunni en á sama tíma finnum við samhuginn sem býr í okkar litlu þjóð. Við stöndum saman og leggjumst á eitt til að hjálpa hvert öðru, hugga og styðja,. Þetta ár hefur sannarlega fengið okkur til að hugsa um það sem skiptir máli í þessu lífi. Hversu lítið við í raun ráðum yfir örlögum okkar sem einstaklingar, sem fjölskylda, sem vinahópur, sem þjóð og sem mannkyn sem byggir þessa jörð. Covid-19 hefur ekki bara breytt okkar daglega lífi heldur gjörsamlega breytt heimsmynd okkar. Hlutir eins og það að allt flug í heiminum myndi nánast falla niður á einum degi hefði okkur þótt óhugsandi fyrir ári síðan. En á nokkrum dögum bara gerist það. Það hefðu líka fáir trúað því að á nokkrum dögum myndu nemendur og kennarar umbreyta öllu námi og kennslu. Nám færðist yfir í netheima og bæði nemendur og kennarar meira og minna að vinna heima hjá sér. Það hefur verið ótrúlegt að horfa á þetta gerast, sjá sköpunarkraftinn hjá kennurum og nemendum og ný tækifæri verða til. Auðvitað er margt sem við söknum og sumt af því mun koma til baka en ekki allt. Skólastarf í öllum heiminum hefur breyst til frambúðar, það verður ekkert alveg eins og áður. Okkur mun bera gæfa til að tileinka okkur það sem vel hefur tekist til með og halda áfram að efla VMA sem lærdómssamfélag,“ sagði Sigríður Huld Jónsdóttir.

ítarleg umfjöllun um brautskráninguna er á vef VMA

Ávarp nýstúdents

Myndasyrpa frá brautskráningunni