Brauðgerðarhúsið færir út kvíarnar
Brauðgerðarhúsið í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð er að fara að færa út kvíarnar og opna brauðbúð í göngugötunni á Akureyri. Verslunin verður í sama húsnæði og verslun Kristjánsbakarís var í um árabil en eins og kunnugt er lokaði Kristjánsbakarí báðum brauðbúðum sínum nýverið.
Kristjánsbakarí er í eigu Gæðabaksturs og að sögn Andra Kristjánssonar, annars eigenda Brauðgerðarhúss, kom Vilhjálmur Þorláksson stofnandi og framkvæmdastjóri Gæðabaksturs að máli við sig í sumar. „Hann viðraði þá hugmynd við mig að ég tæki við þessum rekstri og sagði mér hvað til stæði hjá honum. Það hefur reyndar alltaf staðið til hjá mér að komast niður í miðbæ þannig að ég var fljótur að stökkva á þetta,“ segir Andri í samtali við akureyri.net. Hann segir að stefnt sé að opnun verslunarinnar þann 18. nóvember, ef allt gengur upp.
Reksturinn í Sunnuhlíð verður óbreyttur áfram
Bakaríið Brauðgerðarhús var opnað í verslunarmiðstöðinni í Sunnuhlíð í ágúst 2021 og hét upphaflega Brauðgerðarhús Akureyrar. Andri segir að nafnið hafi þótt í lengra lagi og ákveðið hafi verið að stytta það.
Aðspurður segir Andri að verslunin í göngugötunni verði hrein viðbót við reksturinn og starfsemin í Sunnuhlíð verði áfram með óbreyttu sniði. Ekki sé búið að útfæra endanlega afgreiðslutímann í nýju versluninni en það verði þó opið alla daga vikunnar. Andri sér ýmis tækifæri í staðsetningunni í miðbænum og meðal annars séu hugmyndir uppi um að lengja afgreiðslutímann í sumar en það verði ákveðið þegar nær dregur.