Bráðaaðgerð til að lagfæra Gilsbakkaveg

Bæjarráð Akureyrar samþykkti nýverið ósk umhverfis- og mannvirkjaráðs um 40 milljóna króna viðauka við fjárhagsáætlun vegna framkvæmda til að lagfæra sig í Gilsbakkavegi. Heildarendurgerð götunnar er á stefnuskránni en nauðsynlegt þykir að fara í þessar viðgerðir nú í haust til að tryggja að brekkan ofan Listasafnsins hrynji ekki hreinlega niður.
Breytilegt „listaverk“ blasir við þegar horft er út um glugga tengigangs milli Listasafnsins og Ketilhússins, í átt að Gilsbakkavegi.
Meðfram Gilsbakkavegi að sunnanverðu er stór og brött brekka, sem er beint ofan við húsin í Listagilinu. Steinsteyptur veggur sunnan götunnar er byrjaður að síga fram í brekkuna og orsakar þar með sig í götunni. Dóra Sif Sigtryggsdóttir, forstöðumaður rekstrardeildar á umhverfis- og mannvirkjasviði, segir að kostnaðaráætlunin innifeli talsverða óvissu því ekki sé fyllilega vitað hvað gerist þegar framkvæmdir hefjast. „Þetta sig sem er núna í götunni hefur komið að miklu leyti á þessu ári og því síðasta, þannig að þetta hefur gerst ansi hratt. Núna þurfum við að bregðast við þessu og reyna að tryggja brekkuna svo hún hrynji ekki niður,“ segir Dóra Sif.
Heildarendurgerð Gilsbakkavegar
Til stendur að laga vegginn og setja nýja kanthleðslu og tryggja þar með brekkuna. Fyrir nokkrum árum var farið í sambærilegar framkvæmdir neðar í götunni, ofan Ketilhússins, og Dóra Sif segir að þær framkvæmdir hafi staðist vel.
Viðaukinn við fjárhagsáætlunina vegna framkvæmdanna felst í tilfærslu á fjármagni innan framkvæmdaáætlunar gatna árið 2025. Dóra Sif segir að til standi að endurgera Gilsbakkaveg í heild og endurnýja lagnir í leiðinni. Sú framkvæmd er áætluð á næsta ári og Dóra Sif vonast til að það gangi eftir en þó er ekki búið að samþykkja framkvæmdaáætlun ársins 2026.