Fara í efni
Mannlíf

Börnin vilja taka að sér fjöru í Bótinni

Erindi barnanna til Ásthildar bæjarstjóra. Myndir af vef Akureyrar.
Erindi barnanna til Ásthildar bæjarstjóra. Myndir af vef Akureyrar.

Börn á leikskólanum Hulduheimum – Koti við Þverholt í Glerárhverfi vilja taka að sér litla sandfjöru í Bótinni, í nágrenni við leikskólann. Þau skunduðu í morgun á fund Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra. Frá þessu er greint á vef bæjarins.

Þar segir:

„Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fékk í morgun skemmtilega heimsókn frá börnum og kennurum í leikskólanum Hulduheimum Koti. Þau færðu henni formlegt erindi, undirritað af þeim öllum, með ósk um að taka að sér litla sandfjöru í Bótinni.

Fjaran er hluti af svæði sem kallað var Kamburinn og biðja börnin einnig um að fá að gefa fjörunni nafnið Kambfjara og að hún verði þannig merkt inn á kort Akureyrar.

Börnin hafa í hyggju að vinna með Bláa hernum og vilja sjá um að halda fjörunni hreinni.

Ásthildur spjallaði við börnin og tók á móti erindinu sem verður í framhaldinu tekið fyrir í viðeigandi ráði.“

Börnin funda með Ásthildi bæjarstjóra í morgun.