Fara í efni
Fréttir

Bongóblíðan kemur eftir leiðinda júní

Hátt í 30 stiga hita má vænta á Norðausturlandi á þriðjudaginn kemur. Mynd: vedur.is

Sumarið hefur snúið aftur til landsins eftir að hafa týnst meira og minna allan júnímánuð. Eftir lygilegt hitaskeið í maí, kom einn sá leiðinlegasti júní sem Akureyringar hafa séð, þar sem meðalhitinn var 8,1 gráða, 1,5 gráðu lægra en gengur og gerist frá aldamótum. Sólskinsstundir voru töluvert færri, og úrkoman meiri. Norðanhret gekk svo yfir landið 3. og 4. júní, eins og flest muna eflaust vel. 

Hér má sjá kort af Vedur.is þar sem sést hitavik (breytingu í meðalhitastigi) um allt land í júní. Norðausturland er lengst frá því að halda meðalhita, eða 1,5 - 2,5 gráðu kaldara.

Sólin snýr aftur

Nú sjáum við aftur til sólar, en síðustu dagar hafa verið í hlýrri kantinum og sólríkt stóran hluta dags. Spáin er svo mjög góð fyrir Norðausturland um helgina, en eftir helgi verður blíðan lyginni líkust, ef spáin gengur eftir. Um helgina verður hlýjast á Norðausturlandi, en hiti um allt land verður á bilinu 12-20°. Sólríkt verður á Akureyri en mögulega læðast nokkur ský yfir himininn. 

Á mánudag hitnar í kolunum og spáin hér um slóðir hljóðar upp á 20-24° hita. Þriðjudagurinn verður svo enn hlýrri, ef spár ganga eftir, með 26-28° gráðum á spákortum Veðurstofunnar. Ekki oft sem það sjást svona tölur í spánni. Engin væta er í kortunum á Norðausturlandi.

 

T.v. Sólin verður á Norðausturlandi um helgina. T.h. Gott veður um land allt, en sól og háar hitatölur Norðaustanlands. Myndir: vedur.is