Fara í efni
Fréttir

Bón Blika til Þórsara hitti ekki í mark!

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Óhætt er að segja að beiðni áhangenda Breiðabliks til Þórsara, um liðsstyrk í stuðningssveit Kópavogsliðsins á leiknum við KA á Íslandsmótinu á Akureyri í kvöld, hafi ekki hitt í mark!

„Kæru Þórsarar.

Við erum nokkrir félagar úr Kópacabana, stuðningsmannasveit Breiðabliks. Á morgun mæta Blikarnir á Greifavöllinn að keppa við KA. Það er allt undir hjá Blikum í titilbaráttunni og evrópubaráttu hjá KA.

Við í Kópacabana óskum eftir liðsstyrk frá grjóthörðum Þórsurum við að tralla með okkur á leiknum. Fyrir vonandi jákvæð viðbrögð, ætlum við í staðinn að smala í amk eitt borð á næsta herrakvöldi Þórs,“ sagði í færslu í lokaðri Facebook síðu, Ég er Þórsari, í gærkvödi.

„Skammarleg bón“

„Þetta mun ég aldrei gera þó svo að ég sé Þórsari. Ég vona að KA vinni þennan leik og kæmist nær evropusæti,“ skrifar einn Þórsarinn. „Þetta finnst mér skammarleg bón,“ segir annar.

„Þótt við séum Þórsarar og erum sífellt að keppa við þá um að vera besta lið bæjarins þá erum við ekki slíkir skíthælar að við mætum á þeirra völl til að styðja utanbæjarlið. Það er öllum Akureyringa til góðs að íþróttafélögum á Akureyri gangi vel hvort sem það er KA Þór eða Skautafélagið. Gangi ykkur allt í haginn Breiðabliksmenn. Þið eruð með frábært lið og þurfið ekki að leita liðsinnis Þórsara né annarra heimamanna í leik á Akureyri,“ segir þriðji Þórsarinn.

Forkastanlegt

Sá fjórði skrifar: „Er þetta spaug? Er Þór stuðningsmannaleiga fyrir önnur félög? Jú jú, ég vona sannarlega að ka tapi þessum leik sem og öðrum en kommon. Ég fer ekki að gerast málaliði fyrir önnur félög sem mér er alveg sama um, með fullri virðingu. Þú kvittar einmitt undir með því orði, en mér finnst þessi póstur vera forkastanleg vanvirðing. Verið velkomnir á herrakvöld en þetta er galið. Að því sögðu, áfram Breiðablik á morgun.“

Mislásum stöðuna

Einn spurði hvort þetta væri grín, og fékk svar við því í lokafærslu þess sem hóf spjallið:

„Ég vil þakka öllum sem lögðu orð í belg, þetta er þroskandi og uppbyggileg umræða.

Í fyrsta lagi er þetta ekki grín. Í öðru lagi viljum við alls ekki vanvirða eða móðga neinn. Það var ekki ætlunin.

Við félagaranir mislásum stöðuna. Við upplifum okkar ríg í Kópavogi, með þeim hætti að við myndum frekar styðja Þór gegn HK, svo dæmi sé tekið. Við héldum, að rígurinn hérna á Akureyri væri þess eðlis líka, en við erum að komast að annari niðurstöðu núna.

Hvetjum ykkur öll til að mæta, sama hvort liðið þið styðjið!“