Fara í efni
Mannlíf

Bók um drekann Dreigó seld á Glerártorgi í dag

Bjarki Skjóldal Þorsteinsson með bókina Drekinn tekur við, glóðvolga úr prentsmiðjunni í gær. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringurinn Bjarki Skjóldal Þorsteinsson fékk í gær 50 eintök af bók sinni, Drekinn tekur við, glóðvolg úr prentsmiðjunni og er ekkert að tvínóna því hann verður með bókina til sölu á Glerártorgi í dag. 

„Þetta er fyrsta sagan mín en það er ekki víst að hún sé sú síðasta. Ég er með fleiri hugmyndir,“ sagði Bjarki við akureyri.net í gær.

Bókina hugsaði Bjarki handa litlum frænda sínum. „Þegar litli bróðir minn var að eignast barn byrjaði ég að teikna drekann, sem heitir Dreigó. Hann er skemmtileg fígúra eins og ég hef séð í týpískum teiknimyndasögum, og ég ákvað að byggja upp heim um hann, vini hans og óvini. Ég myndi ekki kalla Dreigo hetju; hann er frekar skúrkur og ég get sagt að hann vinnur ekki á endanum.“

Hálft annað ár er síðan litli frændi kom í heiminn þannig að gerð bókarinnar hefur tekið drjúgan tíma en Bjarki haft mjög gaman af. „Dreigó er fyrsti dreki allra í sögubókum til að taka við konungsríki án þess að stela því. Hann vinnur það,“ segir hann og bætir við: „Það er svolítið grillaður húmor í þessu. Ég er gríðarlega ánægður með bókina og hún er fyrir alla, bæði foreldra og krakka.“

  • Bjarki og Þorsteinn faðir hans verða með bókina til sölu frá kl. 16.00 í dag á Glerártorgi.