Fara í efni
Menning

Kynnir bók skálds hlátursins og gleðinnar

Kynnir bók skálds hlátursins og gleðinnar

Hjálmar heitinn Freysteinsson, lengstum heimilislæknir á Akureyri, var þekktur hagyrðingur og afar vinsæll skemmtikraftur. Kveðskapur Hjálmars var langoftast í léttum dúr; hann var skáld hlátursins og gleðinnar, eins og Ragnar Ingi Aðalsteinsson segir í inngangsorðum bókarinnar Ekki var það illa meint sem var að koma út hjá Bókaútgáfunni Hólum. Ragnar og Höskuldur Þráinsson ritstýra bókinni.

  • Ragnar Ingi kynnir bókina í dag á milli klukkan 16.00 og 18.00 í bókaverslun Pennans Eymundsson við göngugötuna. Lesin verða sýnishorn úr bókinni og fólk getur eignast hana á tilboðsverði.

Í bókinni er yfir 700 lausavísur eftir Hjálmar og um 40 kvæði. Auk þess eru birtar nótur að tveimur lögum sem hafa verið samin við ljóð eftir Hjálmar. Langstærstur hluti bókarinnar er lausavísur, einkum limrur, margar þeirra sannkallaðar perlur.

Hér eru fáein dæmi úr bókinni.

Auglýst eftir blaðbera „á Mývatni“
(Hjálmar sá auglýsingu sem vakti athygli hans)

Mývatn löngum mesti
merkisstaður var.
Jesú bróðir besti
ber út Moggann þar!

Eigin konan var að þrífa baðherbergið
(drullusokkurinn var í ólagi)

Sigríður er sómakona,
sérhvern prýða myndi flokk,
en óheppin að eiga svona
ömurlegan drullusokk.

Akureyri var tilnefnd „besti áfangastaðurinn“
(en meðfylgjandi mynd var af öðrum bæ)

Bærinn minn er flestum fegri,
þó finnst mér næsta víst að yrði
Akureyri unaðslegri
ef hún væri á Siglufirði.

Þungunarpróf

Ein þokkadís þóttist of sver,
lét þungunarpróf gera á sér.
Svarið var „Já“,
segir hún þá:
„Sést þá hver faðirinn er?“

Lögreglunámið norður!
(sbr. „Um utanbæjarmenn mun hafa verið að ræða.“)

Löggunemarnir læra þá,
ljúki þeir fjórum önnum,
hvernig taka eigi á
utanbæjarmönnum.

Úr dánarmeinaskrá

Á Lágheiði djúp eru díkin,
þar drukknaði Móskógatíkin.
En banamein Hreins,
bakarasveins,
það var þágufallssýkin.

Í útilegu

„Ég er komin með hundleið‘ á köllum,
þeirra karlrembutilburðum öllum,“
mælti Halla eitt kvöld,
höstug og köld.
Þá kom Eyvindur alveg af fjöllum.

Ragnar Ingi segir í inngangsorðum að hugsanlega hafi Hjálmar langað „til að verða skáld alvörunnar, skáld tilfinninga og sterkra hughrifa, skáld baráttu fyrir betri heimi og bættu siðferði mannsins. En hann festist í grallaraskapnum. Lausavísur hans voru svo vel gerðar og hrífandi skemmtilegar að hann var undir stöðugum þrýstingi að bæta við og búa til fleiri.“

Hjálmar var sannarlega fær um að yrkja á alvarlegum og gagnrýnum nótum og dæmi eru um það í bókinni. Ragnar segir tilhugsunina um að Hjálmar hefði vikið af þeirri leið sem hann fór, og hætt galgopaskapnum, ekki þægilega. „Vísurnar, sem hann lætur eftir sig, ortar af orðfærni, hugkvæmni og fljúgandi hagmælsku, ásamt með góðum skammti af grallaraskap og hrekkjanáttúru grínistans, þær eru perlur sem eiga eftir að lifa á vörum þjóðarinnar og vekja gleðibrag og hlátrasköll um langa framtíð,“ skrifar Ragnar. Og bætir við: „Við skulum alls ekki gera lítið úr þeim arfi.“