Boðið upp á sálgæslu á SAk á ný

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk), segir í bígerð að bjóða upp á sálgæslu á stofnuninni á nýjan leik. Málið ætti að skýrast á næstu dögum.
Séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, skrifaði grein sem birtist á Akureyri.net á föstudag og vakti gríðarlega athygli. Þar fjallaði hann – undir fyrirsögninni Ég vil ekki deyja á Sjúkrahúsinu á Akureyri – hve slæmt það sé ekki þjónustan sé ekki í boði á stofnuninni, því þörfin sé mikil.
„Góð sálgæsla í kringum veikindi og andlát getur skipt sköpum varðandi það hvernig fjölskyldan tekst á við áfallið,“ sagði Sindri Geir m.a. í greininni.
Sindri Geir benti á að ómannað stöðugildi væri fyrir sálgæti á SAk. Hildigunnur staðfesti það og sagði nokkrar ástæður fyrir því að staðan hefði ekki verið setin undanfarið. „Við áttum okkur vel á mikilvægi góðrar sálgæslu sem réttilega getur skipt sköpum fyrir fjölskyldur sem takast á við erfið áföll. Við höfum horft til lausnar og nú er unnið að því að leggja lokahönd á þá útfærslu í samráði við þá sem þjónustuna eiga að veita. Þetta skýrist á allra næstu dögum,“ sagði Hildigunnar Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, við Akureyri.net í dag.
Smellið hér til að lesa grein séra Sindra Geirs.