Fara í efni
Menning

Boðið upp á Bragðaref og Sjónmennt

Bragðarefur er heiti sýningar listnáms- og hönnunarbrautar VMA.

Tvær sýningar verða opnaðar laugardaginn 4. maí kl. 15 í Listasafninu á Akureyri. Þar gefst tækifæri fyrir áhugasöm um nýja listamenn á svæðinu að skoða sýningar nemenda Myndlistaskólans á Akureyri og listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Sýningarnar bera heitin Sjónmennt 2024 og Bragðarefur. 

Um sýningu Myndlistaskólans segir í fréttatilkynningu: Sjálfsskoðun er mikilvæg og gerir þá kröfu til nemandans að hann nái að yfirstíga nánd sína og birta viðfangsefni sitt á þann hátt að veki áhuga áhorfandans. Það getur verið snúið, en styrkleiki nemandans felst í hnitmiðaðri, myndrænni framsetningu verkanna og kunnáttu til að miðla henni á sem sterkastan hátt til áhorfandans. Myndræn framsetning verkanna er hluti af hugmyndinni og gegnir lykilhlutverki í að miðla áhrifunum til áhorfandans.

Nemendur sem sýna eru Guðmundur Guðmundsson, Þorsteinn Viðar Hannesson og Þóra Sigurðardóttir úr fagurlistadeild.  Ása María Skúladóttir, Birgitta Sól Helgadóttir, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir og Oliwia Morańska úr listhönnunardeild.

Sjónmennt 2024

Sýning nemenda Verkmenntaskólans ber heitið Bragðarefur. Í fréttatilkynningu segir að við undirbúning sýningarinnar velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst. Að baki verkanna liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með.

Samhliða öðru námi fá nemendur eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar.

Nemendur: Alexandra Kolbrún Gísladóttir, Birna Karen Sveinsdóttir, Elísabet Ýr Jóhannesdóttir, Erik Birkir Ólason, Guðmundur Tawan Víðisson, Hafdís Rún Heiðarsdóttir, Hemmi Ósk Baldursbur, Hrafnkell Myrkvi Þórðarson, Kara Líf Antonsdóttir, Karen Líf Sigurbjargardóttir, Klara Bergmann Hauksdóttir, Margrét Rún Stefánsdóttir, Minna Kristín Óskarsdóttir, Rökkvi Týr Þorvaldsson, Stefán Páll Þórðarson, Svanhvít Líf Bjarnadóttir, Úrsúla Nótt Siljudóttir.

Bragðarefur