Fara í efni
Íþróttir

Blundar í Örnu að spila aftur í Svíþjóð

Arna Sif Ásgrímsdóttir var yfirburðamaður í liði Þórs/KA í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Arna Sif Ásgrímsdóttir var yfirburðamaður í liði Þórs/KA í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs/KA síðustu ár, gekk í raðir Valsmanna á dögunum og samdi til tveggja ára.  Arna segist,  í viðtali við Fótbolta.net, stefna að því að komast aftur út í atvinnumennsku og er spennt fyrir sænsku deildinni.

Arna lék sem lánsmaður með Glasgow City fyrri hluta árs og varð skoskur meistari. Hún lék gríðarlega vel og segir að komið hafi til greina að fara aftur til Glasgow eftir tímabilið hér heima, en eftir að hafa metið kosti og galla ákveðið að semja til Val.

„Þau reyndu og reyndu og voru í raun að reyna allt tímabilið hér hvort ég gæti komið í ágúst og hvort ég gæti komið þegar tímabilið væri búið hjá mér. Þeir voru búnir að senda mér tilboð og ég var komin með samninginn í hendurnar og leit allt voðalega vel út," sagði Arna við Fótbolta.net, um áhuga forráðamanna skoska liðsins.

„Þetta var geggjaður tími í Glasgow og ég lét tilfinningarnar aðeins tala fyrst því mér leið svo vel og allt gekk upp. Þegar ég fór að pæla fótboltalega, það hefði verið frábært skref að fara til Glasgow því það er frábært félag og umgjörðin, leikmenn og allt upp á tíu, en svo þegar þetta Vals-dæmi kemur upp þá fór ég að setja upp kosti og galla og þetta er alls ekkert ósvipað dæmi," segir Arna Sif í viðtalinu við Fótbolta.net.

Smellið hér til að hlusta á viðtalið við Örnu Sif.

Arna Sif jafnar, 2:2, á lokasekúndum deildarleiksins gegn Breiðabliki á heimavelli í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.