Fara í efni
Íþróttir

Blak: Gull og silfur á bikarmóti yngri flokka

KA-stelpurnar í flokki U14 sem urðu bikarmeistarar um helgina. Þær heita Arney Hrund Sigurðardóttir, Emma Marý Sigurðardóttir, Hrafndís Jana Gautadóttir, Katla Valgerður Kristjánsdóttir, Katrín Markúsdóttir, Margrét Sigríður Árdal, Tamara Hanna Krajewska og Una Lind Daníelsdóttir. Auk þeirra hömpuðu stelpurnar í U20 einnig bikarmeistaratitlinum. Mynd: FB-síða KA.

KA náði frábærum árangri á bikarmóti yngri flokka í blaki sem fór fram í Mosfellsbæ um helgina. Leikið var í flokkum undir 20 ára og undir 14 ára. Stelpurnar í U20 og U14 gerðu sér lítið fyrir og hömpuðu bikarmeistaratitlinum. Strákarnir í U20 og U14 stóðu sig einnig með prýði og unnu bæði lið til silfurverðlauna.

Stúlkurnar í U14 liði KA unnu allar sínar viðureignir nokkuð örugglega og stóðu uppi sem bikarmeistarar. U20 liðið vann sömuleiðis alla sína leiki, þar á meðal öruggan 3:0 sigur gegn Þrótti frá Neskaupstað í bikarúrslitaleiknum.

U14 lið strákanna vann til silfurverðlauna en strákarnir biðu einungis lægri hlut í viðureignum sínum gegn sameiginlegu liði Þróttar frá Neskaupstað og Aftureldingar, sem fékk gullið.

Og U20 lið strákanna varð einnig að sætta sig við silfrið eftir nauma tapleiki gegn Vestra. Fyrst í oddahrinu í hörkuviðureign í undankeppninni og síðan í úrslitaleiknum um bikarmeistaratitilinn en aðrar viðureignir unnust.