Blágreni – ræktað á Íslandi í liðlega öld

„Í eina tólf áratugi hefur blágreni, Picea engelmannii Parry ex Engelm., verið ræktað á Íslandi. Það hentar vel í blandaða útivistarskóga, getur verið ljómandi gott jólatré og sómir sér einstaklega vel í stórum görðum. Það vex fremur hægt en er þétt og fallegt.“
Þannig hefst nýr pistill Sigurðar Arnarsonar í röðinni Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga.
„Flutt hafa verið inn fjölmörg kvæmi og er töluverður munur á sumum þeirra hvað vöxt, þrif og barrlit áhrærir. Tréð er mun minna ræktað til viðarframleiðslu en stórvaxnari grenitegundir en þó þekkjast þess dæmi, enda myndar það þéttan og góðan við,“ skrifar Sigurður og bætir við að löngu tímabært sé orðið að „skenkja þessari snotru tegund nokkra þanka.“
Umfjölluninni verður skipt í tvo hluta. Í þeirri fyrri, sem birt er í dag, er fjallað almennt um tegundina og í hinni síðari verður fjallað sérstaklega um ræktun blágrenis á Íslandi.
Meira hér: Blágreni