Fara í efni
Fréttir

Björn hættur eftir 31 ár sem formaður

Björn Snæbjörnsson í kvöld - fyrrverandi formaður og nýr heiðursfélagi Einingar-Iðju. Mynd af vef félagsins.

Björn Snæbjörnsson lét í kvöld af formennsku í verkalýðsfélaginu Einingu-Iðju eftir 31 ár í formannsstólnum. Anna Júlíusdóttir, sem hefur verið varaformaður, tók við af Birni á aðalfundi félagsins í Hofi.

Björn var meðstjórnandi í stjórn verkalýðsfélagsins Einingar árin 1982 til 1986 og sem varaformaður frá árinu 1986. Árin í stjórn félagsins eru því alls orðin 41.

Gerður að heiðursfélaga

Fyrsta verk nýkjörins formanns félagsins, Önnu Júlíusdóttur, var að sæma Björn Snæbjörnsson gullmerki Einingar-Iðju, að því er segir á vef félagsins. „Að því loknu tilkynnti Anna jafnframt að stjórn félagsins hefði ákveðið að gera Björn að heiðursfélaga Einingar-Iðju. Fundargestir risu úr sætum og hylltu Björn vel og lengi,“ segir á vefnum.

Þegar Björn flutti skýrslu stjórnar í síðasta sinn í kvöld fjallaði hann m.a. um mikilvægi trúnaðarmanna í starfi félagsins. „Það að hafa öflugt trúnaðarmannakerfi er gullkista hvers félags, trúnaðarmenn eru augu félagsins á hverjum vinnustað og fylgjast með að allt sé í lagi er varðar réttindi og skyldur starfsfólks. Við höfum lagt mikið upp úr því að trúnaðarmenn sæki námskeið til að efla sig í hinu dýrmæta hlutverki sem trúnaðarmaður,“ sagði Björn.

Trúnaðarmenn eru drifkrafturinn

 „Margir atvinnurekendur hafa sagt við mig að góður trúnaðarmaður sé gulls ígildi á vinnustað, ekki meint svo að hann sé að samþykkja allt sem hans yfirmaður segir heldur hefur kynnt sér málin og veit hvað er rétt og passar þannig upp á sína vinnufélaga. Svo eru til aðrir atvinnurekendur sem gera í því að hafa ekki trúnaðarmann á sínum vinnustöðum, ætli það sé hræðsla um að þeir verði nappaðir á einhverju ólöglegu eða hvað?“ bætti formaðurinn við. „Við þessa atvinnurekendur segi ég, eruð þið að fela eitthvað? Ef svo er þá mun það fréttast og mun hafa sínar afleiðingar fyrir viðkomandi því að við sofum ekki á verðinum, upp komast svik um síðir. Af hverju er mér svona tíðrætt um trúnaðarmennina og þeirra kraft og þor. Það er vegna þess að í þau 42 ár sem ég hef starfað að verkalýðsmálum eru það trúnaðarmennirnir sem hafa og eru drifkrafturinn í félagi eins og Einingu-Iðju.“

Björn Snæbjörnsson flytur skýrslu stjórnar á aðalfundi Einingar-Iðju í kvöld, í síðasta skipti sem formaður. Mynd af vef Einingar-Iðju.