Fara í efni
Fréttir

Björn Gíslason stýrir uppbyggingu á Bakka

Björn Gíslason og Bergþór Bjarnason fjármálastjóri sveitarfélagsins Norðurþings. Mynd af vef Norðurþings.

Akureyringurinn Björn Gíslason hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra atvinnuuppbygginar á Bakka við Húsavík. Greint var frá ráðningunni á vef sveitarfélagsins Norðurþings í gær.

„Hlutverk verkefnastjóra er að ýta úr vör nýjum verkefnum á Bakka við Húsavík, styðja fjárfesta með greinargóðum upplýsingum og samhæfa vinnu lykilaðila að stórum fjárfestingum á svæðinu. Björn mun hefja störf í janúar,“ segir í tilkynningunni.

„Björn var framkvæmdastjóri Stefnu frá árinu 2021 og hefur stýrt því fyrirtæki í gegnum miklar breytingar sem leitt hafa til tekjuvaxtar. Áður starfaði Björn m.a. sem fjárfestingarstjóri hjá KEA þar sem hann kom að mati á fjárfestingarkostum og mati á tækifærum og viðskiptahugmyndum sem og sem sjóðsstjóri fjárfestingarsjóðsins Tækifæris hjá Íslenskum verðbréfum til margra ára,“ segir á vef Norðurþings. „Björn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og tekið þátt í stefnumótun og rekstri fyrirtækja og mati nýsköpunarhugmynda. Einnig hefur Björn mikla reynslu sem verkefnastjóri þar á meðal hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.“

Björn er með B.Sc menntun í sjávarútvegsfræði og M.Sc í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum á Akureyri auk MBA gráðu frá Copenhagen Business School.

„Ég hlakka til að hefja störf og takast á við spennandi verkefnin sem eru framundan fyrir Bakkasvæðið og atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi,“ er haft eftir Birni í tilkynningunni frá Norðurþingi.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri segir að mikill áhugi hafi verið fyrir starfinu og að Björn hafi verið ráðinn úr hópi hæfra umsækjenda, sem voru 12. „Björn hefur mikla reynslu sem mun nýtast okkur vel í krefjandi verkefnum komandi vikna og mánuða í atvinnuuppbygginu á svæðinu. Það er virkilega ánægjulegt að geta haldið tímalínu með því að klára þessa ráðningu fyrir áramót enda mjög aðkallandi að fá núna inn sterkan aðila með skýra sýn á að landa nýjum verkefnum á Bakka,“ segir Katrín.