Fara í efni
Fréttir

Stefna: Björn Gíslason nýr framkvæmdastjóri

Björn Gíslason, nýr framkvæmdstjóri Stefnu, til vinstri, og Matthías Rögnvaldsson.
Björn Gíslason, nýr framkvæmdstjóri Stefnu, til vinstri, og Matthías Rögnvaldsson.

Björn Gíslason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stefnu hugbúnaðarhúss og mun hann hefja störf í ársbyrjun 2021.

Björn er sjávarútvegsfræðingur með MBA gráðu frá Copenhagen Business School, M.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá sama skóla.

Síðustu ár hefur Björn starfað sem fjárfestingastjóri hjá KEA fjárfestingafélagi, áður var hann verkefna- og rekstrarstjóri hjá Stefnu og fram að því sjóðsstjóri hjá Íslenskum verðbréfum. Björn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja á undanförnum árum, má þar nefna Þekkingu, Þulu, Vök baths og Ferro Zink.

Björn tekur við starfinu af Matthíasi Rögnvaldssyni, stofnanda Stefnu, sem hefur verið framkvæmdastjóri nánast frá upphafi, en félagið var stofnað árið 2003. Matthías ákvað að breyta til en er þó hvergi nærri farinn af velli; hann verður áfram einn eigenda, tekur við stjórnarformennsku í félaginu og mun sinna ráðgjöf og viðskiptaþróun.

Mikill vöxtur - bjart framundan

Matthías segir stjórn félagsins afar ánægða með ráðninguna því Björn búi yfir mikilli reynslu, auk þess sem hann þekki vel til innviða félagsins. „Síðastliðin ár hefur mikil þróunarvinna átt sér stað hjá Stefnu og félagið hefur vaxið mjög hratt. Undanfarið hefur Stefna tryggt sér fjölmarga samninga um frekari þróun á vörum og lausnum í samstarfi við viðskiptavini okkar og hefur verkefnastaðan sjaldan verið betri. Vegna mjög góðrar stöðu þótti okkur heppilegt að gera þessa breytingu nú og efla stjórnendahóp félagsins til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar á nýju ári,” segir Matthías Rögnvaldsson.

„Þetta er mjög spennandi tækifæri enda hefur Stefna vaxið mjög á undanförnum árum og hefur verið að gera frábæra hluti á sínu sviði,” segir Björn Gíslason. „Ég hlakka mikið til að endurnýja kynni mín við það frábæra starfsfólk sem er að finna hjá Stefnu, og taka þátt í áframhaldandi þróun félagsins.“

Starfsmenn Stefnu eru 33 og fleiri verða ráðnir á næsta ári. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri en starfsstöðvar einnig í Kópavogi og Svíþjóð.

  • Á myndinni eru Matthías Rögnvaldsson og Róbert Freyr Jónsson, sölustjóri og einn þriggja stofnenda, um það leyti sem haldið var upp á 15 ára afmæli Stefnu fyrir nokkrum misserum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.