Fara í efni
Íþróttir

Björgvin með eina fullkomna leikinn

Þórsarinn Björgvin Helgi Valdimarsson eftir að hann náði fullkomnum leik í Egilshöll um helgina.

Þórsarinn Björgvin Helgi Valdimarsson keilari náði þeim stórmerkilega áfanga um helgina að spila fullkominn leik í fyrsta skipti; hann felldi hverja einustu keilu í öllum skotum og fékk 300 stig. Björgvin er sá eini sem náð hefur þessum árangri í deildarkeppninni hérlendis vetur en þess verður að geta að aðrir keilarar hafa afrekað þetta á öðrum mótum vetrarins, en hvorki í deildum þeirra bestu né öðrum.

Lið Björgvins Helga, Þór Víkingur, lék við ÍR L í 2. deild Íslandsmótsins í Egilshöll í Reykjavík og tapaði 13:3 en fögnuðurinn var engu að síður mikill vegna afreks Björgvins Helga. „Jú, ég get ekki neitað því að ég er montinn og stoltur af því að hafa náð þessu. Það eru allir vinir í þessu sporti, mótherjarnir stóðu allir upp, klöppuðu og gáfu mér high five. Menn fagna alltaf þegar mótherjinn nær fellu,“ sagði Björgvin við Akureyri.net í gær.

  • Það er kallað fella þegar spilari hreinsar brautina; fellir allar keilurnar í einu skoti.

Björgvin, sem er 34 ára og hefur stundað keilu í ein átta ár, segist aldrei hafa verið nálægt því að ná 300 stigum áður. Hann og aðrir Þórsarar eru í mjög einkennilegri stöðu því engin keilubraut er á Akureyri lengur og keilarar félagsins æfa á Akranesi.

„Ég segi stundum í gríni í vinnunni að ég keppi bara í keilu en æfi ekki!“ segir Björgvin. „Ég byrjaði í sportinu þegar hér var enn keilusalur, þá vorum við með fjögur karlalið og tvö kvennalið og tveir krakkar frá Akureyri voru komnir í unglingalandsliðið.“

Á þeim árum æfðu um 40 manns keilu á Akureyri, segir Björgvin, en keilara í bænum má nú telja á fingrum beggja handa.

Síðan keilusalnum á Akureyri var lokið fyrir um það bil fimm árum hefur engin aðstaða verið í bænum. „Við megum æfa á Akranesi þegar við viljum og heimaleikir okkar fara fram þar. Við tökum léttar æfingar á föstudagskvöldum þær helgar sem keppum og geymum kúlurnar okkar á Skaganum. Það eru einu skiptin sem við getum æft. Þetta er auðvitað bagalegt og mjög fúlt. Við ræddum á sínum tíma við Akureyrarbæ í þeirri von að hægt væri að útbúa einhverja aðstöðu en það var aldrei hljómgrunnur fyrir því.“

Spurður hvað þyrfti til þannig að keilarar yrðu sáttir segir Björgvin: „Á Akranesi eru þrjár brautir og það dugar svo sem, en við myndum samt helst vilja hafa fjórar brautir.“

Þór teflir fram tveimur karlaliðum í deildarkeppninni í vetur, annað er í efstu deild en Björgvin og félagar í næst efstu deild, sem fyrr segir. Karladeildir eru þrjár og ein kvennadeild.