Fara í efni
Íþróttir

Bikarmeistarar sækja KA heim – KA/Þór tapaði

Ólafur Gústafsson þrumar að marki í bikarleiknum gegn Aftureldingu í vetur; Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson og Böðvar Páll Ásgeirsson til varnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stelpurnar í KA/Þór lutu í lægri haldi fyrir toppliði ÍBV þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum í gær á Íslandsmótinu í handbolta. Eyjastúlkur voru mun sterkari, höfðu níu marka forystu í hálfleik og sigurinn var afar öruggur. Stelpurnar okkar náðu aðeins að rétta úr kútnum í seinni hálfleik en lokatölur urðu 28:23.

Mörk KA/Þ​órs: Nathalia Soares Bali­ana 8, Ida Ho­berg 4, Rut Jóns­dótt­ir 3, Lydía Gunnþórs­dótt­ir 3 (2 víti), Sunna Katrín Hreins­dótt­ir 2, Agnes Vala Tryggva­dótt­ir 1, Anna Þyrí Hall­dórs­dótt­ir 1, Krist­ín A. Jó­hanns­dótt­ir 1.

Var­in skot: Matea Lonac 13.

ÍBV er með 34 stig í efsta sæti Olís deild­ar­inn­ar og hef­ur tveggja stiga for­skot á Val en KA/Þ​ór er í fimmta sæt­i með 12 stig eins og Hauk­ar. Tvær umferðir eru eftir af deildinni áður en úrslitakeppnin hefst. KA/Þór mætir annað hvort Stjörnunni eða Fram í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Leikirnir sem KA/Þór á eftir:

  • Laugardag 25. mars kl. 15.00 KA/Þór - Fram
  • Laugardag 1. apríl kl. 16.00 Valur - KA/Þór

Næst síðasti heimaleikur KA

Karlalið KA í handbolta fær nýbakaða bikarmeistara Aftureldingar í heimsókn í kvöld í 19. umferð Olís deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 19.00. Afturelding vann fyrri leik liðanna í deildinni í Mosfellsbæ, 34:29, og liðin mættust síðan í KA-heimilinu í átta liða úrslitum bikarkeppninnar þar sem gestirnir höfðu betur, 35:32, eftir mikla spennu og framlengdan leik.

KA er sem stendur í 10. sæti með 11 stig og hverfandi líkur á að liðið komist í átta liða úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. KA þyrfti þá  að vinna alla fjóra leikina og treysta á að Haukar, sem eru í áttunda sæti með 17 stig, misstigu sig illa. Haukar unnu báða leikina við KA í vetur og eiga eftir að fá Hörð frá Ísafirði í heimsókn. Lið Harðar er lang neðst í deildinni.

Eftir kvöldið á KA þrjá leiki eftir í deildinni:

  • Föstudag 31. mars kl. 18.00 FH - KA
  • Miðvikudag 5. apríl kl. 19.30 KA - Fram
  • Mánudag 10. apríl kl. 16.00 Grótta - KA