Fara í efni
Íþróttir

Bikarleikur KA gegn Ægi, Þór leikur á Selfossi

Þórsarinn Hermann Helgi Rúnarsson og KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnulið Þórs og KA verða bæði í eldlínunni í dag. Þórsarar hefja leik klukkan 17.00 á Selfossi í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, og klukkan 18.00 taka KA-menn á móti liði Ægis í átta liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarkeppninnar.

Ægir úr Þorlákshöfn leikur í 2. deild Íslandsmótsins, þriðju efstu deild, en KA er í 2.-3. sæti Bestu deildarinnar, þeirrar efstu, þannig að Akureyrarliðið á að eiga greið leið í undanúrslit ef allt er með felldu.

Selfyssingar eru í sjötta sæti Lengjudeildarinnar með 22 stig en Þórsarar í því áttunda með 20. Þeir færu því upp fyrir Selfyssinga með sigri.

Þórsarar hafa unnið síðustu þrjá leiki í deildinni, gegn Kórdrengjum og Grindavík á útivelli og Vestra heima.

Selfyssingar hafa hins vegar ekki náð að sigra í síðustu fjórum; töpuðu fyrir Gróttu á Seltjarnarnesi, heima fyrir HK og Aftureldingu og gerðu síðast jafntefli við Þróttara í Vogum.

Selfyssingar unnu fyrri leikinn gegn Þór á Akureyri, 2:0, en þau úrslit voru ekki í samræmi við gang leiksins. Þá var lið Selfoss á toppi deildarinnar en hefur skrikað fótur síðan.

Smellið hér til að lesa um fyrri leik Þórs og Selfoss.