Fara í efni
Fréttir

Betadeildin heiðraði Helgu Hauksdóttur

Aðalbjörg Bragadóttir, formaður Betadeildar á Akureyri, til vinstri, og Helga Hauksdóttir, sem hlaut viðurkenningu deildarinnar fyrir vel unnin störf í þágu menntunar- og fræðslumála.

Helga Hauksdóttir, fyrrverandi skólastjóri, var á dögunum heiðruð af akureyrskri Betadeild alþjóðasamtakanna Delta, Kappa, Gamma

Delta, Kappa, Gamma eru alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum. Ísland hefur átt aðild að samtökunum síðan 1975 og eru 13 deildir starfandi á landsvísu með um 330 félagskonum. Tvær deildir starfa á Akureyri og er Betadeild önnur þeirra. Verkefni deildarinnar eru margvísleg en árlega styrkir Betadeild m.a. stúlkur til menntunar undir merkjum UNICEF, að því er segir í tilkynningu.

Betadeild hefur heiðrað eina konu fyrir störf að mennta- eða menningarmálum á fimm ára fresti frá árinu 1997; konu „sem hefur unnið framúrskarandi og markverð störf í þágu barna og/eða menntamála. Með þessu vill Betadeild vekja athygli á konum sem vinna að mikilvægum störfum í þágu menningar og menntunar.“

Haldið var upp á 45 ára afmæli Betadeildarinnar síðastliðinn föstudag og á þeim tímamótum var tækifærið til að heiðru Helgu Hauksdóttur, en hún „hefur lagt mikið að mörkum í mennta- og fræðslustörfum og unnið afar óeigingjarnt starf sem kennari, skólastjóri og kennsluráðgjafi erlendra nemenda,“ eins og segir í tilkynningu frá Betadeildinni.

Elja og ástríða

„Þegar Helga var skólastjóri í Oddeyrarskóla var þar móttökudeild fyrir nýbúa en árið 2012 var deildin lögð niður og nemendurnir fóru í sína heimaskóla. Helga tók þá við nýju starfi hjá Akureyrarbæ, starfi kennsluráðgjafa erlendra nemenda. Það starf mótaði hún og þróaði áfram af mikilli elju og ástríðu. Hún fór m.a. á milli grunnskóla bæjarins til að kenna nemendum og vinna með kennurunum auk þess að vera í góðu sambandi við fjölskyldur nemenda,“ segir í tilkynningu frá Betadeildinni.

„Þörfin fyrir ráðgjöf til kennara, námsefni, stuðning við nemendur og kennara, upplýsingar til fjölskyldna um ýmis mál og fleira var mikil. Meðfram þessari vinnu bjó Helga til heimasíðuna erlendir.akmennt.is þar sem hún kom miklu efni þar inn sem hún taldi að gæti nýst öllum aðilum. Frá árinu 2012 hefur erlendum nemendum fjölgað svo um munar í grunnskólum Akureyrar og er brautryðjendastarf Helgu í þessum málaflokki afar mikilvægt og hefur án efa komið öllum til góða.“ 

Helga veitti viðurkenningu deildarinnar viðtöku við hátíðlega athöfn að Brúnum í Eyjafjarðarsveit föstudaginn 26. maí og var myndin tekin við það tækifæri.