Fara í efni
Fréttir

Bekkur nálægt Glerá í minningu Baldvins

Stjórn minningarsjóðsins og foreldrar Baldvins heitins við bekkinn. Frá vinstri: Ingólfur Árnason, Hermann Rúnarsson bróðir Baldvins, Arnar Geir Halldórsson, Orri Sigurjónsson, Rúnar Hermannsson og Ragnheiður Jakobsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar hefur látið útbúa og koma fyrir bekk við göngustíg skammt norðan Glerár; steinsnar frá bæði Glerárskóla og heimili Baldvins heitins við Háhlíð.

Bekkurinn er afar vandaður, merktur Baldvin enda er hann í raun minnisvarði um þann góða dreng. Á bekknum er einnig áletrunin Takk fyrir komuna, sem voru einskonar einkunnarorð Baldvins á meðan hann barðist við krabbamein, en hann lést 31. maí 2019, aðeins 25 ára.

Fljótlega eftir að Baldvin lést stofnuðu fjölskylda hans og vinir minningarsjóðinn með það að markmiði að heiðra minningu hins látna. Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála í anda Baldvins og hefur styrkjum verið úthlutað reglulega frá stofnun sjóðsins sumarið 2019 til félagasamtaka á Akureyri og nágrenni.

Alls hefur rúmlega sjö milljónum króna verið úthlutað og meðal þeirra sem notið hafa góðs af sjóðnum má meðal annars nefna KAON, göngudeild SAK, Kvennaathvarfið og Hetjurnar auk þess sem Íþróttafélagið Þór, Glerárskóli og Menntaskólinn á Akureyri hafa hlotið gjafir úr sjóðnum.

Bekkurinn er spölkorn norðan Glerár, nálægt tröppum sem liggja niður að Glerárvirkjun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.