Fara í efni
Fréttir

Bærinn smám saman klæddur í jólafötin

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyri varð jólaleg af náttúrunnar hendi á dögunum þegar snjór þakti jörð um tíma en svo hvarf hann eins og dögg fyrir sólu. Nú hefur birt á ný, þótt jörð sé enn auð, því síðustu daga hafa starfsmenn Akureyrarbæjar og fleiri verið á kreiki við að hengja upp jólastjörnur og aðrar skreytingar hér og þar.

Í gær kom að því sem margir hafa án efa beðið eftir, tvær frægustu jólastjörnur bæjarins voru hengdar á sinn stað og ljósin kveikt; þetta eru vitaskuld sú í Kaupvangstræti – sem sumir kalla líklega enn KEA-stjörnuna – og hin í Hafnarstræti, „göngugötunni“, sem enn er líklega kennd við Amaro, þótt sú góða verslun sé löngu horfin. Segja má að smám saman sé verið að klæða Akureyri í jólafötin og þess má geta að í dag eru nákvæmlega 50 dagar þar til hátíð ljóss og friðar gengur í garð.