Fara í efni
Fréttir

Báðum brauðbúðum Kristjáns bakarís lokað

Kristjáns bakarí í Hrísalundi. Þar verður áfram bakað en versluninni verður lokað. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ákveðið hefur verið að loka báðum brauðbúðum Gæðabaksturs á Akureyri, verslunum sem bæjarbúar hafa jafnan kallað „Kristjáns bakarí.“ Önnur er í húsnæði fyrirtækisins í Hrísalundi en hin nyrst í göngugötunni. Í tilkynningu frá Gæðabakstri kemur reyndar fram að í skoðun sé að nýr rekstraraðili taki yfir verslunina í göngugötunni.

Akureyringum hefur staðið til boða að kaupa sér bakkelsi hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar – Kristjáns­bakaríi – síðan Kristján Jónsson stofnaði fyrirtækið árið 1912. Gæðabakstur keypti fyrirtækið árið 2015, að því er fram kemur á vef Gæðabaksturs.

Í tilkynningunni segir að rekstur verslananna hafi „verið þungur um nokkurra ára skeið“ og stjórn fyrirtækisins talið að ekki yrði unað við óbreytt ástandi.  „Gæðabakstur mun nú einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni nyrðra en mun skoða alla möguleika með frekari breytingar í huga,“ segir í tilkynningunni.

Verslun Gæðabaksturs nyrst í göngugötunni. Flestir hafa væntanlega kennt hana við Kristjáns bakarí, enda er merkingin enn þannig. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Gæðabakstur sendi frá sér svohljóðandi tilkynningu síðdegis í dag:

Stjórn Gæðabaksturs hefur ákveðið að hætta rekstri tveggja verslana fyrirtækisins á Akureyri og einbeita sér að kjarnastarfsemi þess nyrðra. Í skoðun er að nýr rekstraraðili takið yfir verslunina í Hafnarstræti en verslun fyrirtækisins við Hrísalund mun hætta rekstri.

Fjöldi stöðugilda hjá Gæðabakstri á Akureyri fækkar um 7 í verslunum og 3,5 í framleiðslu og pökkun. Stjórn Gæðabaksturs þakkar þeim starfsmönnum sem nú láta af störfum fyrir vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Rekstur verslana Gæðabaksturs á Akureyri hefur verið þungur um nokkurra ára skeið og nú er svo komið að stjórn fyrirtækisins taldi ekki lengur við óbreytt ástand unað og því var þessi ákvörðun tekin. Gæðabakstur mun nú einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni nyrðra en mun skoða alla möguleika með frekari breytingar í huga.

Saga Brauðgerðar Kr. Jónssonar

Á netinu er að finna vef Kristjánsbakarís þar sem stiklað er á stóru í sögu fyrirtækisins. Þar segir meðal annars:

  • Saga bakarísins er í stuttu máli sú að 12. júní 1912 stofnaði Kristján Jónsson Brauðgerð Kr. Jónssonar á Akureyri. Fyrst í stað var bakaríið til húsa að Strandgötu 41 á Akureyri, sem jafnframt var heimili Kristjáns, en var síðar flutt tveimur húsum ofar við götuna, í Strandgötu 37. Kristján stóð sjálfur í rekstrinum í rúma fjóra áratugi eða allt þar til Snorri sonur hans tók við árið 1958.
  • Snorri var að mörgu leyti frumkvöðull í rekstri brauðgerða hérlendis svo sem í vélvæðingu og ýmsum tækninýjungum og enn þann dag í dag er Brauðgerð Kr. Jónssonar í fararbroddi hvað þetta varðar. Snorri rak brauðgerðina með miklum myndarbrag og eftir því sem árin liðu komu synir hans fjórir, þeir Kristján, Júlíus, Birgir og Kjartan, til liðs við hann.
  • Árið 1989 keyptu tveir þeir síðastnefndu hlut bræðra sinna og nokkru seinna hlut föður síns. Frá þeim tíma er fyrirtækið í eigu Birgis og Kjartans Snorrasona sem stýra rekstrinum í sameiningu.
  • Brauðgerð Kr. Jónssonar var eitt elsta iðnfyrirtæki landsins sem frá upphafi hafði verið í eigu sömu fjölskyldu, en fyrirtækið sameinaðist Gæðabakstri árið 2015.
  • Slagorð Brauðgerðar Kr. Jónssonar & Co var ætíð „Merkið tryggir baksturinn“.

Vefur Kristjáns bakarís