Austfirskar verslanir í útrás til Akureyrar

Austfirskar verslanir eru í auknum mæli farnar að sækja til Akureyrar. Fyrir tveimur árum opnaði Blóðberg á Seyðisfirði verslun í miðbænum og í sumar opnaði tískuvöruverslunin River við Tryggvabraut. Nú hefur þriðja austfirska verslunin bæst í hópinn, Hús handanna á Egilsstöðum, sem opnað hefur útibú í Brekkugötunni.
„Okkur bauðst óvænt að fara í 25 fermetra útrás til Akureyrar. Þetta er tiltölulega lítið rými sem hentar okkur vel til að prófa okkur áfram og sjá hvernig gengur,“ segir Lára Vilbergs, sem rekið hefur Hús Handanna, umhverfisvæna lífstílsverslun, í 15 ár á Egilsstöðum, en opnar nú útibú á Akureyri í sama húsnæði og Litla saumastofan að Brekkugötu 9. „Það eru ekki alltaf bara stórfyrirtæki sem fara í útrás,“ segir Lára hress og bætir við að kannski sé þetta bara nýja trendið, að litlu fyrirtækin fari í útrás!
Lára Vilbergs í versluninni á Akureyri sem deilir húsnæði með Litlu saumastofunni við Brekkugötu 9.
Verslunin á Akureyri hefur fengið nafnið Hygge og hýjalín og þar verður að finna fatnað, skó og töskur frá dönskum hönnuðum/fyrirtækjum á Jótlandi sem leggja áherslu á hæglætistísku (slow fashion). Þar má nefna flíkur frá Cofur úr endurunnum silkisaríum frá Indlandi, merinó- og hörfatnað frá By Basics, sem framleiðir sínar vörur eingöngu eftir pöntunum verslana og situr því aldrei uppi með lager. Þá er verslunin með þægilega skó frá Tim og Simonsen sem hægt er að dansa í alla nóttina, eins og Lára orðar það. Auk þess verður fyrir jólin boðið upp á sérvalda danska og sænska gjafavöru sem Hús handanna flytur inn.
Akureyri er dásamlegur bær og mikilvægur markaður fyrir okkur. Það er bæði gaman og skynsamlegt skref fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar að færa út kvíarnar hér.
Hygge og hýjalín leggur áherslu á hæglætistísku frá dönskum hönnunarfyrirtækjum.
Skynsamlegt skref fyrir lítið fyrirtæki
Lára segir að hugmyndin að útrásinni hafi kviknað eftir góða reynslu af pop-up viðburðum, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þá bendir hún einnig á að markaðssvæðið á Austurlandi sé lítið og því mikilvægt að horfa út fyrir heimaslóðir. Þegar tækifæri bauðst til að deila húsnæði með Litlu saumastofunni í miðbæ Akureyrar ákvað hún að grípa skemmtilegt tækifæri, en mögulega hafi ómeðvitað líka spilað inn í ákvörðunina að húsnæðismál verslunarinnar á Egilsstöðum eru í óvissu.
„Akureyri er dásamlegur bær og mikilvægur markaður fyrir okkur. Það er bæði gaman og skynsamlegt skref fyrir lítið fyrirtæki eins og okkar að færa út kvíarnar hér. Við erum með vefverslun hushandanna.is en konum finnst mikilvægt að máta og þess vegna gott að hafa bækistöð hér. Við eigum marga góða og skemmtilega kúnna á Akureyri sem koma austur til að versla. Það er eina áhyggjuefnið að þeir hætti að koma austur með tilkomu útibúsins, og það má alls ekki gerast. Það er svo gaman að fá svona hressar konur að norðan til okkar austur í heimsókn,“ segir Lára sem útilokar ekki að flytja starfsemi verslunarinnar alfarið norður ef ekki rætist úr húsnæðismálum fyrir austan.
„Að vera hér með saumastofunni finnst mér þægileg og skemmtileg tilraun enda er Hús handanna bara lítið fyrirtæki og ég hef ekkert bolmagn í meira, þetta er passlegt skref að sinni,“ segir Lára og minnir á opnunartíma verslunarinnar á Akureyri sem er til að byrja með frá kl. 13 til 16, en stefnt er á að lengja opnunartímann á næstu vikum. „Við hvetjum fólk til að fylgjast með á Facebook-síðunni okkar Hygge og hýjalín fyrir nánari upplýsingar,“ segir Lára.
Blóðberg Boutique Store selur t.d vörur frá Farmers Market. Verslunin er í Skipagötu 12 á Akureyri. Mynd: Facebooksíða Blóðbergs.
Blóðberg fyrst til að koma norður
Eins og áður segir þá er Hygge og hýjalín þriðja austfirska verslunin sem opnar verslun á Akureyri. Lífstílsverslunin Blóðberg, sem rekin hefur verið á Seyðisfirði til margra ára af Ernu Helgadóttur, opnaði verslun á Akureyri árið 2023. Fyrst var verslunin til húsa fyrir neðan Nonna travel í Brekkugötunni en flutti í sitt núverandi húsnæði að Skipagötu 12 í ársbyrjun 2024. Verslunin selur íslenskar hönnunarvörur m.a frá Farmers Market, Feldur Verkstæði og Orrifinn, sem og ýmsar aðrar sérvaldar vörur.
Móðir Maríu Lenu stofnaði River á sínum tíma á Egilsstöðum. María Lena ólst upp við reksturinn sem í upphafi var sólbaðsstofa í bílskúr á Egilsstöðum en breyttist svo í vinsæla tískuverslun. Mynd: úr einkasafni.
Sólbaðsstofan sem varð að tískuvöruverslun
Þá opnaði tískuvöruverslunin River, sem er rótgróin á Egilsstöðum, verslun við Tryggvabraut 5 í sumar. Það er María Lena Heiðarsdóttir Olsen og eiginmaður hennar, Hannes Örn Ívarsson, sem eiga River en þau keyptu reksturinn af móður Maríu Lenu, Björk Birgisdóttur Olsen, fyrir tveimur árum síðan, sem hafði þá rekið River á Egilsstöðum í ein 14 ár, en þó má segja að verslunin hafi eiginlega byrjað níu árum fyrr, árið 2002. „Mamma byrjaði með sólbaðsstofuna Perlusól í bílskúrnum heima þegar ég var 9 ára gömul. Hún fór smátt og smátt bjóða upp á nærföt og náttföt til sölu þar og bætti síðan við tískufötum. Mamma sá fljótt að það var markaður fyrir tískuvöruverslun á Egilsstöðum og þá flutti starfsemin úr bílskúrnum og í núverandi húsnæði í miðbæ Egilsstaða árið 2011 og með því fjaraði Perlusól út og varð að River,” rifjar María Lena upp.
Hún segist alltaf hafa haft sterkar tilfinningar til búðarinnar enda alin upp í verslunarrekstrinum meir og minna en öll fjölskyldan hjálpaði til við reksturinn. Hún segir því ekkert annað hafa komið til greina en að hún tæki við rekstrinum þegar móðir hennar vildi hætta. María Lena og Hannes áttu fyrirtækið M Fitness fyrir en þau opnuðu M Fitness verslun við Tryggvabraut á Akureyri árið 2023. „River hefur alltaf verið bæði íþrótta- og tískuvöruverslun og það hefur unnið mjög vel saman í gegnum árin. Eftir að við tókum við rekstrinum á River langaði okkur að sjá hvort verslunin myndi ekki passa vel með M Fitness vörunum og þar sem við vorum nú þegar með verslunarhúsnæði á Tryggvabraut ákváðum við að opna River í sama húsnæði.” Áður höfðu þau gert það sama í Reykjavík og opnað RIver verslun í verslunarhúsnæði M Fitness á Stórhöfðanum. Viðtökurnar þar voru það góðar að hjónin ákváðu að gera það sama Akureyri.
River er rótgróin tískuvöruverslun á Austurlandi sem opnaði sína þriðju verslun á Akureyri í sumar. Fyrir er River með verslun í Reykjavík og á Egilsstöðum.
Íþróttaleggings við flotta kjóla
Aðspurð hvers konar vörur fáist í River segir María Lena að verslunin hafi fram til þessa verið þekkt fyrir að selja íþróttafatnað á alla fjölskylduna og tískuföt á konur en þau séu að íhuga að bæta karlmanns tískufatnaði við vöruúrvalið. „Tískufötin og íþróttabransinn tvinnast vel saman, konur kaupa sér t.d. íþróttaleggins undir flotta kjóla og flotta íþróttaskó við alls konar fatnað,” segir María Lena og bætir við að verslunin sé aðeins með dönsk fatamerki hvað tískufatnaðinn varðar, merki á borð við Bruuns-bazaar, Rue de femme og mbyM. Þá fást einnig skór, skart, töskur og aðrir fylgihlutir í versluninni. „Við eigum mikið af góðum kúnnum um allt land og höfum á hverju ári fengið til okkar konuhópa frá Norðurlandi. Eins höfum við verið að senda mikið af pöntunum til Akureyrar í gegnum netverslunina þannig að við teljum að það sé góður grundvöllur fyrir River verslun á Akureyri,” segir María Lena að lokum og minnir á að það séu næg bílastæði við verslunina að Tryggvabraut 5.
River verslunin á Akureyri selur danskan tískufatnað, skó, skart, töskur o.fl. Í sama húsnæði má fá vörur M Fitness.