Fara í efni
Fréttir

Átta stiga hita spáð á aðfangadagskvöld

Átta stiga hita spáð á aðfangadagskvöld

Þunnt snjólag lá yfir Akureyri þegar bæjarbúar rýndu út í myrkrið í morgun, á stysta degi ársins. Sól er ætíð fjærst norðurpól jarðar 21. desember en strax á morgun tekur dag að lengja á ný. Örlítið frost var í morgun en breytilegt veður verður næstu daga og Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, upplýsti Akureyri.net um það í morgun að á aðfangadagskvöld gæti hitinn í höfuðstað Norðurlands farið upp í átta gráður og jafnvel meira! Ekki uppáhalds jólaveður fjöldans, sem vill helst hvít jól, en því verður að taka og er vitaskuld lítilvægt í stóra samhenginu á þessu furðulega Covid-ári.

„Snjó leysir á aðfangadag þegar stroka með suðlægu lofti fer hratt norður yfir landið og hitinn verður átta stig plús,“ segir Einar. „Á jóladag verður suð-vestan blástur og þá kólnar niður undir frostmark. Á annan í jólum er að sjá að verði meinlítil norðanátt með síðbúnum en jólalegum éljum.“

Einar rekur Veðurvaktina og fjallar ítarlega dag hvern um veður og loftslag á vefnum blika.is

Vægt frost verður næsta sólarhringinn en annað kvöld kólnar og frost gæti farið í sex stig annað kvöld. Úrkomulaust verður allt þar til um miðnætti á Þorláksmessu, snjóað gæti aðfararnótt aðfangadags, rigning verður að líkindum síðdegis en styttir upp um það leyti sem jólin ganga í garð.