Átta skátar úr Klakki hlutu forsetamerkið
Átta skátar úr Skátafélaginu Klakki á Akureyri voru í hópi þeirra 26 skáta sem sæmdir voru forsetamerkinu síðastliðinn sunnudag.
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi, veitti skátunum merkin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í ár er 60 ára afmæli forsetamerkisins, en alls höfðu 1.488 skátar hlotið það frá 1965 þegar það var veitt fyrst.
Snýst um að kveikja eld innra með sér og öðrum
„Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að,“ segir meðal annars í frétt á vef Bandalags íslenskra skáta. Þar kemur fram að hópurinn sem hlaut forsetamerkið að þessu sinni hafi verið sá fjölmennasti frá 2016. Forsetamerkið er veitt rekkaskátum, 16-18 ára, sem hafa stundað metnaðarfullt rekkakátastarf.
Ein úr Klakkshópnum, Fríða Björg Tómasdóttir, flutti ávarp við athöfnina og sagði meðal annars:
„Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfann, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar.“
Ávarp Fríðu og ítarlegri umfjöllun um forsetamerkið og veitingu þess má finna í áðurnefndri frétt Bandalags íslenskra skáta.

Tvö úr hópi þeirra skáta sem hlutu forsetamerkið að þessu sinni fluttu ávörp við athöfnina á Bessastöðum. Fríða Björg Tómasdóttir, Skátafélaginu Klakki, og Kristófer Njálsson, Skátafélaginu Mosverjum. Mynd: Bandalag íslenskra skáta.
Skátar úr Klakki sem hlutu forsetamerkið:
- Anton Bjarni Bjarkason
- Anton Dagur Björgvinsson
- Ásbjörn Garðar Yngvason
- Birkir Kári Gíslason
- Birkir Kári Helgason
- Fríða Björg Tómasdóttir
- Hörður Andri Baldursson
- Snædís Hanna Jensdóttir
„Öll eiga þau það sameiginlegt að vera félaginu til sóma og góðar fyrirmyndir fyrir yngri skáta,“ segir meðal annars í frétt á vef Skátafélagsins Klakks.