Fara í efni
Menning

Atli tilnefndur til Grammy-verðlaunanna

Atli Örvarsson tónskáld í hljóðveri sínu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Atli Örvarsson tónskáld í hljóðveri sínu á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Atli Örvarsson er tilnefndur til Grammy-verðlaunanna, ásamt öðrum sem sömdu tónlist fyrir kvikmyndina Eurovision Song Contest: The Story of Fire and Saga, í flokki tónlistar fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki. Plata með tónlist úr kvikmyndinni er ein þeirra fimm sem eru tilnefndar í flokknum Best Compilation Soundrack For Visual Media, og kalla mætti heildarhljóðheim myndarinnar. 

Grammy-verðlaunin, sem bandaríska tónlistarakademían veitir, eru ein þau virtustu í heimi og í janúar verða þau afhent í 63. sinn. Athöfnin fer jafnan fram í Los Angeles en vegna heimsfaraldursins er óljóst hvort fólk safnast saman þar að þessu sinni.

„Jú, það er mjög gaman að þessu og mikill heiður. Þetta lítur mjög vel út á ferilskránni!“ sagði Atli hógvær í samtali við Akureyri.net.

Alls kyns hefðbundin popplög eru í myndinni eins og gefur að skilja, enda snýst hún um Eurovision-stemningu. Höfundar þeirra eru erlendir, en Atli samdi áhrifstónlistina í myndina; dramatísku tónlistina sem hljómar þegar poppinu sleppir. Hún er mjög frábrugðin poppinu, eðli málsins samkvæmt. Sett var saman svíta með tónlist Atla úr myndinni og er hún eitt verkanna á umræddri plötu.

Vert er að geta þess að tónlist Atla í kvikmyndina var tekin upp í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, þar sem hann sveiflar einmitt tónsprotanum á meðfylgjandi mynd.

Fleiri Íslendingar eru tilnefndir til Grammy-verðlauna í ár. Hildur Guðnadóttir til tvennra; í flokki frumsaminnar kvikmyndatónlistar fyrir kvikmyndina Joker, og fyrir bestu útsetningu, fyrir tónverkið Bathroom Dance, úr sömu kvikmynd.

Þá eru Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnason einnig tilnefnd. Plata hljómsveitarinnar, Concurrence, er tilnefnd til verðlaunanna í flokki besta hljómsveitarflutnings. Daníel stjórnaði hljómsveitinni.