Fara í efni
Menning

Ástin sem eftir er: Viltu spjalla við leikstjórann?

Hlynur Pálmason leikstjóri kvikmyndarinnar Ástin sem eftir, segir frá myndinni fyrir sýningu í Sambíóinu á Akureyri í kvöld og að henni lokinni gefst áhorfendum tækifæri til að spyrja Hlyn út í myndina og ræða efni hennar.

Hlynur Pálmason, leikstjóri kvikmyndarinnar Ástin sem eftir er, segir frá myndinni fyrir sýningu hennar í Sambíóinu á Akureyri kl. 20 í kvöld, mánudagskvöld, og að sýningu lokinni gefst áhorfendum tækifæri til að spyrja Hlyn út í myndina og ræða efni hennar.

Hlynur kemur til Akureyrar eftir að hafa sýnt myndina á Ísafirði og Patreksfirði á föstudag og laugardag. „Ég er sjálfur utan af landi, við búum í Hornafirði og erum ekki svo heppin að hafa bíó lengur. Ég ákvað eftir forsýningu í Reykjavík að fara hringinn og sýna myndina í þeim bíóhúsum sem eftir eru,“ segir Hlynur þegar blaðamaður akureyri.net náði tali af honum. Hann segir að það sé mjög algengt erlendis að aðstandendur kvikmynda bjóði upp á spjall af þessu tagi.

„Ég hef ferðast mikið með myndirnar mínar um allan heim og víða er þetta eitthvað sem hefur verið í gangi í mörg, mörg ár,“ segir hann. Og það kemur reyndar upp úr dúrnum að Hlynur er ekki að gera þetta í fyrsta sinn hérna heima. „Við gerðum þetta fyrir þremur árum með myndina Volaða land, það gekk mjög vel og var rosa gaman. Þá vorum við með svona spjall við fólkið fyrir og eftir sýningar og mig langaði bara til að halda þessu áfram því þetta heppnaðist mjög vel,“ útskýrir Hlynur.


Ástin sem eftir er þegar seld til yfir 30 landa
 

Þetta er fjórða kvikmynd Hlyns í fullri lengd og óhætt er að segja að myndirnar hans hafi vakið athygli og gengið vel. Til að mynda komst Volaða land á „stuttlista“ fyrir Óskarsverðlaunin en það eru nokkurs konar undanúrslit fyrir þau virtu verðlaun. Og þessi nýjasta mynd, Ástin sem eftir er, hefur þegar verið seld víða erlendis. Hlynur er ánægður með hvernig myndirnar hans hafa gengið en tekur velgengninni samt af hógværð. „Þetta er búið að vaxa hægt og vel. Við erum komin með góða dreifingaraðila og samstarfsfólk um allan heim. Lönd sem hjálpa okkur að fjármagna myndina, því það er aðeins lítill hluti af þessu íslenskir peningar,“ segir Hlynur en tekur fram að þó að íslenski markaðurinn dugi ekki einn og sér þá þyki honum vænt um sinn heimamarkað og vill að Íslendingar fái að sjá myndirnar fyrst. „Við vinnum náið með Danmörku, Frakklandi og Svíþjóð og svo dreifum við myndinni til um það bil þrjátíu landa í viðbót. Ísland er ekki stórt og markaðurinn ekki nógu stór til að gera bíómyndir og sýna eingöngu heima,“ segir Hlynur og þá liggur beinast við að spyrja hvort það væri ekki bara einfaldara að gera myndirnar hreinlega erlendis? Með erlendum leikurum og á útlensku? Hlynur er fljótur að skjóta þá hugmynd í kaf. „Við búum í Hornafirði, líður vel hér og viljum búa hér,“ segir hann jarðbundinn.

Skemmtileg og fyndin og falleg kvikmynd

Stundum hefur kvikmyndum Hlyns verið lýst sem þungum og „erfiðum“. En þau sem hafa séð Ástin sem eftir er segja hana öðruvísi. Léttari. Hlynur segist geta tekið undir það. „Já, ég fann það þegar við vorum að byrja á þessu verkefni. Þá var ég að klára Volaða land og fann að þessi yrði miklu meira playful,“ segir Hlynur hugsi og við reynum um stund að finna heppilegt íslenskt hugtak yfir „playful“. Gáskafull, kannski? Nær sennilega ekki merkingunni að öllu leyti samt. En í áttina. Og Hlynur er heldur ekki í vandræðum með að finna góð íslensk orð til að lýsa myndinni. „Þessi mynd er skemmtileg og fyndin og falleg. Fjölskyldumynd að mörgu leyti - það má segja að þetta sé einhvers konar kómedía en á sama tíma drama um fjölskyldu og ákveðna erfiðleika sem hún er að ganga í gegnum. En myndin er gerð á mjög skemmtilegan og fallegan hátt. Sem betur fer, því ég var ekki að reyna að gera aðra Volaða land,“ bætir Hlynur við kankvís.

 

Hlynur er mjög afkastamikill í listsköpun og þekktur fyrir að vinna lengi að hverju verkefni, gjarnan nokkrum í einu. Hann er spurður hvað sé á teikniborðinu núna þegar Ástin sem eftir er er komin út. „Ég er að leggja lokahönd á verkefni sem er dálítið öðruvísi. Mynd sem er bara 60 mínútur, hvorki stuttmynd né mynd í hefðbundinni lengd. Hún heitir Jóhanna af Örk og við erum að fara að sýna hana bráðum úti í heimi,“ segir Hlynur og í ljós kemur að myndin hefur óvæntar tengingar við Ástin sem eftir er. Börn Hlyns leika í þessari mynd en þau eru líka meðal aðalleikara í Ástin sem eftir er, ásamt Sögu Garðarsdóttur og Sverri Guðnasyni. „Þetta er eiginlega hliðarsaga sem tengist Ástinni sem eftir er. Hún er æðislega skemmtileg og þar fylgjum við eftir þremur systkinum sem eru að byggja fígúru og skjóta hana með örvum. Þetta er mynd sem gerist öll á einum stað en er tekin yfir rosalega langt tímabil, alveg þrjú ár. Hún er aðeins öðruvísi en mjög skemmtileg og falleg,“ segir Hlynur og segist vera spenntur að sjá hvernig viðtökurnar verða.

Hrífst af hlutum sem verða stærri en hugmyndirnar

En af hverju verður myndin í þessari lengd - hvorki stuttmynd né kvikmynd í fullri lengd? Af svarinu má ráða að Hlynur vill láta listina ráða ferðinni. „Ég byrjaði á að vinna hana sem stuttmynd en svo varð hún bara lengri og lengri og ég ákvað að leyfa henni að verða eins löng og hún vildi. Ég var ekki með neinn fyrirfram hugsaðan endi á myndinni, langaði bara til að sjá hvernig hún myndi þróast. Og að lokum kom það mér eiginlega bara á óvart hvar hún endaði,“ segir Hlynur og tekur undir vangaveltur blaðamanns um að myndin hafi kannski bara skapað sig sjálf að einhverju leyti. „Ég hef mjög gaman af þannig hlutum, sem verða bara stærri en ég byrjaði með og stærri en hugmyndin mín. Mér finnst það voða gaman, því sem listamaður er maður alltaf að vonast eftir að hlutirnir séu skemmtilegir, spennandi og komi manni á óvart,“ segir Hlynur að lokum í spjallinu.

Eins og áður segir verður Hlynur viðstaddur sýningu myndarinnar í Sambíóinu á Akureyri í kvöld, þar sem hann segir frá myndinni og býður upp á spjall og vangaveltur að sýningu lokinni. Einstakt tækifæri fyrir kvikmyndaunnendur að fá þarna tækifæri til að fá innsýn inn í veröld eins eftirtektarverðasta kvikmyndaleikstjóra okkar.