Fara í efni
Fréttir

Ásthildur: Icelandair lofar bót og betrun

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta var mjög góður fundur, þeir fóru yfir stöðuna eins og hún er og lofuðu bót og betrun,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, í samtali við Akureyri.net um fund forkólfa Icelandair með fulltrúum sveitarstjórna við Eyjafjörð sem haldinn var á Akureyri í dag.

Mikillar óánægju hefur gætt undanfarið hér nyrðra vegna þess hve oft flugi hefur seinkað eða verið fellt niður, lélegrar upplýsingagjafar og fleira.

Taka þetta mjög alvarlega

Fjórir fulltrúar Icelandair mættu á fundinn, m.a. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, og Ari Fossdal, stöðvarstjóri Icelandair á Akureyri. Ásthildur segir gesti fundarins hafa verið með nokkrar skýringar á erfiðleikunum, m.a. þær að viðhald véla hafi tekið mun lengri tíma en alla jafna sé gert er ráð fyrir. Ástæða þess sé rof í aðfangakeðjum. Þá hafi Icelandair lent í miklum vandræðum vegna veðurs á Grænlandi þar sem vélar hafa orðið veðurtepptar.

„Við fórum rækilega yfir allar athugasemdir sem komið hafa fram, um rof í þjónustu og hve stífir þeir hafa verið á breytingum og breytingagjöldum,“ segir Ásthildur. „Þeir taka þær ábendingar sem borist hafa mjög alvarlega, auðvitað geta þeir gert betur og ætla sér það. Mér fannst skýringar þeirra trúverðugar og Bogi mun væntanlega greina frá breytingunum.“

Breyta þarf loftbrúnni

Ásthildur nefnir að ríkisvaldið þurfi einnig að koma að málinu, með því að breyta reglum varðandi loftbrúna sem svo er kölluð og veitir fólki utan af landi afslátt af flugi til og frá Reykjavík. Þegar fólk hafi skráð notkun á loftbrú en flug sé fellt niður verði afslátturinn að engu!  „Við viljum að falli flug niður geti fólk notað afsláttarkóðann aftur en þannig hefur það ekki verið.“