Fara í efni
Íþróttir

Arna verður líklega næsti þjálfari KA/Þórs

Lögð á ráðin; þjálfarateymi KA/Þórs síðasta vetur, frá vinstri: Arna Valgerður Erlingsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arna Valgerður Erlingsdóttir verður að öllum líkindum næsti þjálfari kvennaliðs KA/Þórs í handbolta. Andri Snær Stefánsson var aðalþjálfari liðsins síðustu ár og náði frábærum árangri en ákvað að láta gott heita að loknu nýliðnu keppnistímabili.

Arna Valgerður lék lengi með KA/Þór en þrálát meiðsli settu strik í reikninginn þannig að hún lék lítið sem ekkert í nokkur ár. Arna og Rut Arnfjörð Jónsdóttir voru aðstoðarþjálfarar Andra Snæs í vetur.

Ekki hefur verið gengið formlega frá samningi kvennaráðs KA/Þórs og Örnu Valgerðar en miklar líkur eru á að smiðshöggið verði rekið á hann á næstu dögum.