Fara í efni
Mannlíf

Árleg talning garðfugla fer fram um helgina

Gráþröstur með epli. Mynd: Fuglavernd.

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi og í ár fer talningin fram dagana 23.-26. janúar. Framkvæmd athugunarinnar fer þannig fram að hver þátttakandi fylgist með garði í einn klukkutíma yfir þessa tilteknu helgi og skráir hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Niðurstöðurnar eru skráðar og sendar til Fuglaverndar.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun hefur Fuglavernd útbúið handhægt hjálparblað með myndum, sem gott getur verið að prenta út og hafa við höndina við talninguna.

Skilafrestur talningargagna er til og með 15. febrúar 2026. Hægt er að velja um ýmsar leiðir við að skrá niðurstöðurnar en Fuglavernd mælir þó með rafrænni skráningu.

Allar nánari upplýsingar um fuglatalninguna, aðferðir og skráningu niðurstaðna eru aðgengilegar á vefsíðu Fuglaverndar. Þar má líka finna margs konar upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra.

Fuglavernd hvetur alla sem hafa snefil af áhuga á fuglum að taka þátt.

Árið 2025 voru þátttakendur alls 57 og alls töldu þeir ríflega 3.000 fugla af 14 tegundur. Nánari niðurstöður má sjá í meðfylgjandi töflu.