Fara í efni
Fréttir

Árleg ljósaganga gegn ofbeldi á þriðjudag

Þriðjudaginn 25. nóvember kl.16:30 fer fram ljósaganga á Akureyri. Mynd: Siggi Mar
Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi – #16 dagar – fer fram ljósaganga á Akureyri þriðjudaginn 25. nóvember. Að göngunni standa Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Femínistafélag MA, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna.
 
Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Í tilkynningu um viðburðinn á Facebook segir að tímabil átaksins tengi á táknrænan hátt saman dagana 25. nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn.
 
Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls ofbeldis og í ár er sjónum beint að stafrænu ofbeldi gegn konum og stúlkum. Gangan hefst kl. 16.30 á Ráðhústorgi. Þaðan verður gengið að Borgarbíó og endað á Amtsbókasafninu þar sem Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytur stutt erindi. Félögin sem að göngunni standa hvetja alla til að mæta og ganga saman gegn ofbeldi.