Fara í efni
Mannlíf

Andri bætti eigið met – um hálf milljón safnaðist

Andri Teitsson, hlaupa- og skíðagöngugarpur úr Skíðafélagi Akureyrar, bætti eigið óformlegt Íslandsmet í skíðagöngu í gær. Hann lagði af stað um hálf níu leytið að morgni miðvikudags og létt gott heita þegar hann hafði lagt 240 kílómetra að baki á göngusvæðinu í Hlíðarfjalli fljótlega eftir hádegi í gær. Hann þreytti Andragönguna fyrsta sinni á síðasta ári og gekk þá 238,9 km.

„Þegar Covid kom upp veturinn 2020 og skíðakeppni var víða aflýst vegna samkomubanns datt einhverjum skíðamönnum í Noregi í hug að taka mjög langar göngur upp á eigin spýtur. Á Íslandi reyndu menn þetta líka og til dæmis gengu Ólympíufararnir Einar Ólafsson, Albert Jónsson og Snorri Einarsson allir um 203 km,“ segir Andri, spurður hvernig stendur á þessu ævintýri hans. 
 
 
Andra fannst þetta heillandi áskorun og langaði að reyna að gera enn betur. „Ég er bara miðlungs skíðamaður en hef þó lokið t.d. 50 km Fossavatnsgöngu og 90 km Vasagöngu. Ég er í góðu hlaupaformi og hef lokið mörgum löngum og erfiðum fjallahlaupum, til dæmis UTMB-hlaupinu umhverfis Mont Blanc sem er 170 km vegalengd og með 10.000 metra hækkun.“
 
Hann lét á þetta reyna um páskana í fyrra. „Ég var búinn að hugsa mikið um hvers konar aðstæður þyrftu að vera, gott rennsli í snjónum, gott veður og svo framvegis og tókst að ganga 238,9 km í Hlíðarfjalli á 24 klukkustundum og það varð skemmtilegur atburður úr þessu. Fjölmargir komu að fylgjast með og hvetja og einhverjir gengu með mér spölkorn,“ segir Andri. 
 
 
 
„Mér fannst ég eiga dálítið inni eftir gönguna 2023 og ákvað því að reyna aftur núna,“ bætir hann við og kveðst þakklátur fyrir að hafa heilsu og þrek til að takast á við svona verkefni. Andri verður 58 ára í desember.
 
„Því miður gekk veðurspáin ekki eftir. Í stað þess að fá sól og gott rennsli þá var snjókoma og lélegt skyggni og lélegt rennsli. Þannig að það var bara með erfiðismunum sem mér tókst að fara 240 kílómetra og bæta einum kílómetra við vegalengdina frá í fyrra. Og draumurinn um 300 km lifir!“
 
Andri gekk til góðs í ár; hét því að greiða 500 krónur fyrir hvern enginn kílómetra í byggingarsjóð gönguskíðahússins í Hlíðarfjalli og þarf vegna dugnaðar að láta 120.000 krónur af hendi rakna!
 
Hann og fleiri dreymir um að aðstaðan í skíðagönguskálanum verði bætt og hvetur fólk til þess að leggja málefninu lið. Þeim sem vilja er bent á reikning Skíðafélags Akureyrar:
 
  • 565 - 14 - 404925 kennitala 480101 - 3830, og gott að setja BYGGING í skýringu.
„Margir lofuðu 10 krónum á hvern genginn kílómetra og sumir mun meira, mér sýnist að við höfum náð að safna um eða yfir hálfri milljón króna,“ segir Andri og er afar þakklátur öllum sem hjálpa til.
 
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Andri lauk göngunni í gær.