Fara í efni
Fréttir

Andlát: Haukur Jóhannsson

Björgvin Haukur Jóhannsson tannsmiður er látinn eftir erfið veikindi. Haukur fæddist 17. janúar 1953 og hefði því orðið 73 ára á laugardaginn en hann lést í fyrrinótt á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Eiginkona Hauks er Ragnheiður Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Harpa, gift Sigurði Veigari Bjarnasyni, Vala og Haukur Heiðar sem kvæntur er Hörpu Hauksdóttur. Barnabörn Hauks og Ragnheiðar eru níu og þau eiga eitt barnabarnabarn.

Foreldrar Hauks voru hjónin Fanney Oddgeirsdóttir og Jóhann Konráðsson. Þau eignuðust sjö börn og var Haukur þeirra yngstur. Hin eru Heiða Hrönn, Anna María, Konráð Oddgeir sem er látinn, Jóhann Már, Svavar Hákon og Kristján.

Haukur var landsfrægur íþróttamaður á yngri árum. Hann lék knattspyrnu með liðum Íþróttabandalags Akureyrar og KA en var kunnastur sem mikill afreksmaður í alpagreinum skíðaíþrótta, svigi og stórsvigi. Haukur varð margfaldur Íslandsmeistari, hann keppti tvívegis á heimsmeistaramóti og tók þátt í einum Ólympíuleikum, í Innsbruck árið 1976.

Útför Hauks Jóhannssonar verður frá Akureyrarkirkju föstudaginn 23. janúar.