Andlát: Guðmundur Oddur Magnússon
Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, er látinn sjötugur að aldri. Hann lést í bílslysi á Biskupstungnabraut á Suðurlandi í gær, laugardaginn 3. janúar. Systir Godds greindi frá andláti hans á samfélagsmiðlum.
Guðmundur Oddur, eða Goddur eins og hann er best þekktur, fæddist á Akureyri 5. júní 1955. Hann var þjóðþekktur fyrir störf sín á sviði grafískrar hönnunar og myndlistar, listagagnrýni og síðast en ekki síst kennslu. Hann var lengi prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og stundaði bæði kennslu og rannsóknir þar til hann fór á eftirlaun.
Goddur nam við grafíkdeild og nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans 1976-1979. Hann rak galleríið Rauða húsið á Akureyri 1980-1982, starfaði á auglýsingastofunum Tímabæ og Midasi í Reykjavík til 1986, en stundaði síðan nám í grafískri hönnun við Emily Carr College of Art and Design í Vancouver í Kanada 1986-1989 og starfaði sem grafískur hönnuður í eitt og hálft ár í Vancouver.
Akureyringar fengu að njóta krafta Godds á ýmsan hátt í gegnum tíðina. Árið 1991 flutti hann aftur norður og vann að stofnun Listamiðstöðvar í Grófargili. Þá kom hann einnig á námi í grafískri hönnun við Myndlistaskólann á Akureyri 1993. Goddur hóf störf sem deildarstjóri í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 þar sem hann starfaði til loka árs 1999. Hann vann einnig að stofnun hönnunardeildar við Listaháskóla Íslands, starfaði þar sem deildarstjóri í grafískri hönnun frá upphafi og var ráðinn prófessor í grafískri hönnun við LHÍ árið 2002.
Guðmundur Oddur kom að fjölbreytilegum verkefnum á sviði lista og hönnunar, ekki aðeins sem kennari og gagnrýnandi heldur skipulagði hann einnig fjölda sýninga í hönnun og myndlist, meðal annarra MÓT hönnunarsýninguna á Kjarvalsstöðum árið 2000, yfirlitssýningu Harðar Ágústssonar á Kjarvalsstöðum 2005, sovésk-pólitíska plakatsýningu í Hafnarhúsinu 2003 og sýningu á Nýja málverkinu í Nýlistasafninu árið 2000. Þá starfaði hann einnig sjálfstætt sem hönnuður meðfram kennslunni og vann að ýmsum verkefnum á því sviði fyrir menningarstofnanir. Eftir hann liggur einnig fjöldi greina um hönnun og myndlist og birtust verk hans í fjölda tímarita og bóka í Asíu, Ameríku og Evrópu.
Hann var sæmdur heiðursprófessorsnafnbót við hönnundardeild Listaháskóla Íslands á liðnu ári fyrir einstakt framlag hans til lista, fræða og þróunar kennslu og rannsókna.