Fara í efni
Fréttir

Andlát: Árni Björn Árnason

Árni Björn Árnason, verkefnastjóri, er látinn á 89. aldursári. Hann var fæddur 18. ágúst 1935 í Kaupmannahöfn og lést á Akureyri sunnudaginn 21. apríl.

Árni Björn er uppalinn á Grenivík en fór ungur til náms á Akureyri og bjó þar allar götur síðan fyrir utan þau ár þegar hann var við nám í vélvirkjun á Patreksfirði.

Foreldrar Árna Björns voru hjónin Árni Björn Árnason læknir á Grenivík og Kristín Þórdís Loftsdóttir. Systkini hans voru Helga Guðrún Árnadóttir, Loftur Jón Árnason og Líney Árnadóttir. Loftur er sá eini systkinanna sem enn er á lífi. Hann er búsettur í Reykjavík.

Börn Árna Björns sem hann átti með eiginkonu sinni Þóreyju Aðalsteinsdóttur eru:

Líney Árnadóttir, maður hennar er Magnús Jósefsson. Börn þeirra: Tinna, Telma, Jón Árni og Hjörtur Þór.

Kristín Sóley Árnadóttir, maður hennar er Kristinn Eyjólfsson. Börn þeirra: Sif Erlingsdóttir, Almarr Erlingsson, Styrmir Erlingsson, Hrólfur Máni Kristinsson, Stefán Snær Kristinsson og Grétar Orri Kristinsson.

Aðalsteinn Árnason, kona hans er Guðrún Jóhannsdóttir. Dóttir þeirra er Guðrún Íris Úlfarsdóttir.

Laufey Árnadóttir, maður hennar er Juan Ramón Peris López. Börn þeirra: Lydia Miriam Peris Herrero og Álvaro Peris Árnason.

Þórey Árnadóttir, maður hennar er Höskuldur Þór Þórhallsson. Börn þeirra: Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni.

Langafabörnin eru 16. Árni Björn og Þórey skildu árið 1991.

Árni Björn átti farsælan 40 ára starfsferil hjá Slippstöðinni á Akureyri. Áður hafði hann unnið ýmis störf t.a.m. sem háseti á síldarvertíð og vélvirki hjá vélsmiðjunum Sindra, Odda og Val, þar sem hann var meðeigandi. Hjá Slippstöðinni gegndi Árni Björn fyrst störfum sem vélvirki en síðar sem verkstjóri í vélsmíðadeildinni. Síðustu tuttugu árin gegndi hann svo hlutverki verkefnastjóra.

Við starfslokin hjá Slippstöðinni 2004 má segja að Árni Björn hafi fundið sér nýjan starfsferil en þá sneri hann sér enn frekar að ritstörfum. Hann hannaði einnig og byggði upp yfirgripsmikinn vef um bátasmíðar á Íslandi www.aba.is. Vann hann að vefnum allt þar til yfir lauk.

Alla tíð var Árni Björn öflugur félagsmálamaður og helgaði hann Verkstjórafélagi Akureyrar krafta sína og síðar Verkstjórasambandi Íslands þar sem hann gegndi ábyrgðarhlutverkum. Honum voru þökkuð störf að lokinni forsetatíð með heiðursskildi og gerður að heiðursfélaga í Verkstjórasambandi Íslands. Hann var ritstjóri og ábyrgðarmaður Verkstjórans í nær þrjá áratugi og í ritnefnd að sögu Verkstjórasambands Íslands.

Á fyrri hluta ævinnar var Árni Björn afar áhugasamur veiðimaður og stundaði bæði stangveiði og skotveiði. Þá átti skíðaiðkun hug hans allan en þegar golfið kom til sögunnar varð ekki aftur snúið og náði hann þeim árangri að fara sem fulltrúi Íslands á Evrópumót eldri kylfinga.