Fara í efni
Íþróttir

Liðið mjög gott en aðstaðan ekki boðleg

Arnar Grétarsson þegar hann stjórnaði KA-liðinu í fyrsta skipti - gegn Gróttu á Akureyrarvelli (Greifavellinum) í 5. umferð Íslandsmótsins síðasta sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn hefja keppni í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í Kópavogi síðdegis þegar þeir mæta HK. Arnar Grétarsson, þjálfari KA, er ánægður með liðið en segir að aðstaða knattspyrnumanna á Akureyri sé ekki boðleg.

„Mér finnst sorglegt að svona stórt bæjarfélag bjóði ekki upp á betri aðstöðu fyrir knattspyrnu. Hún er ekki boðleg og er að mínu mati langt fyrir neðan þann standard sem ætti að vera á Akureyri. Þótt Þór sé með upphitaðan grasvöll er það ekki nóg; hér ættu að vera tveir topp gervigrasvellir með flóðljósum,“ segir Arnar við Akureyri.net.

Hræðist ekkert lið

„Þegar við eigum góðan dag hræðist ég ekki neitt lið. Mörg önnur eru mjög vel mönnuð en KA er ekki síðra þegar við erum með okkar sterkasta hóp. Breiðablik, Valur, KR, FH og Stjarnan búa hins vegar við miklu betri aðstöðu. Valur, Stjarnan og Breiðablik æfa á sínum keppnisvöllum allt árið – við toppaðstæður. Hvar eigum við að æfa á næstunni? Talað var um að Greifavöllurinn væri lélegasti völlur í Evrópu í fyrra en samt var ekki byrjað að spila þar fyrr en um miðjan júní. Við spilum á grasi við KR í 2. umferðinni en getum ekki æft á grasi; ég þori það ekki vegna þess að grasið á KA-svæðinu er þannig að ég óttast að menn snúi sig og meiðist þegar þeir hlaupa um.“

KA-menn æfa því eingöngu á gervigrasinu. „Þar er enginn vökvunarbúnaður eins og maður sér víða, þannig að þegar er jafn þurrt og hefur verið undanfarið og veðrið jafn gott er völlurinn skelfilegur. Þetta eru ekki afsakanir heldur staðreyndir. Ég tel okkur með frábært lið en aðstaðan er alls ekki til að hrópa húrra fyrir og það er mikið áhyggjuefni fyrir KA-menn.“

Arnar tók fram að einn daginn í vikunni gat hann vökvað gervigrasið. „Við æfðum þá um morguninn, engir aðrir voru á svæðinu þannig að við gátum bleytt völlinn með vatnsbyssunni og hann gjörbreyttist. Þegar menn horfa á Meistaradeildina, og reyndar fleiri leiki, sjá þeir að vellirnir eru vökvaðir fyrir upphitun, aftur fyrir leik þegar menn eru farnir inn, og svo aftur í hálfleik. Þegar vellir eru blautir er miklu meira flot á boltanum, meiri hraði og leikirnir þar af leiðandi miklu skemmtilegri.“

Ítarlegt viðtal við Arnar Grétarsson birtist á Akureyri.net síðar í dag.