Fara í efni
Íþróttir

Alusovski þjálfar Þór næstu þrjú ár

Árni R. Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Stevce Alusovski, handsala samninginn í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltaþjálfarinn Stevce Alusovski frá Norður-Makedóníu, sem þjálfaði Þór í vetur, hefur samið áfram við Þórsara – til næstu þriggja ára. Hann og formaður handknattleiksdeildar Þórs segja mikið og spennandi uppbyggingarstarf framundan.

Það vakti gríðarlega athygli þegar þjálfarinn kom til Þórs síðasta sumar enda hafði hann síðast þjálfað norður-makedónska stórliðið Vardar  í frá Skopje. Hann segist vilja halda áfram því verki sem hann hóf í vetur og sér líði mjög vel á Akureyri.

Gat valið úr tilboðum

„Ég lít svo á að í dag höfum við lagt hornstein hjá handknattleiksdeild Þórs, þar sem deildin og félagið í heild sinni tryggði sér starfskrafta Stevce næstu þrjú árin,“ sagði Árni R. Jóhannesson við Akureyri.net eftir að þeir Stevce undirrituðu samning um áframhaldandi samstarf.

„Samningaviðræður voru alls ekki flóknar þar sem Stevce lýsti strax yfir áhuga á að halda áfram og eftir örfáar áherslu- og útfærslubreytingar þá var ekkert sem út af borðinu stóð,“ segir Árni R.

„Stevce var með tilboð annars staðar frá og það er mikill heiður fyrir okkar félag að hann hafi ákveðið að framlengja dvöl sína í Þorpinu. Núna getum við lagst í ákveðna stefnuvinnu. Frá því að Þór tók Akureyri - handboltafélag yfir þá hafa fimm þjálfarar verið með meistaraflokkinn og aðeins Halldór Tryggvason verið lengur en eitt ár, en hann var aðstoðarþjálfari okkar síðasta tímabil.“

Samtímis því að Alusovski gerði nýjan samning við Þór framlengdu fjórir leikmenn samning við félagið; fyrirliðinn, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, Arnór Þorri Þorsteinsson, Viðar Ernir Reimarsson og Halldór Yngvi Jónsson. Nánar um þá síðar.

Gríðarlega mikilvægt skref

„Við teljum að með þessum undirskriftum, og fleiri næstu daga, séum við að taka gríðarlega mikilvægt skref í stefnumótun félagsins hvað handbolta varðar. Íþróttafélagið Þór hefur langa og sterka sögu í handbolta og við sem í dag störfum sem sjálboðaliðar hjá handknattleiksdeildinni verðum að tryggja að svo verði áfram. Með þessum samningum erum við einfaldlega að segja að handboltinn er Íþróttafélaginu Þór mjög mikilvægur,“ segir Árni.

„Við stöndum frammi fyrir því að næstu 20 árin verði nánast bara byggt hér norðan Glerár og við verðum að vera tilbúin undir það að auka og efla alla innviði handboltans. Sunnanáttin hefur verið töluverð í vetur og alveg frá því síðasta vetur hjá okkur í Þór. En við sem erum vön því að hafa hér opinn Eyjafjörðinn og óhefta norðanátt höfum tekið á því með æðruleysi, skref fyrir skref.“

Þór leggur ekki niður handbolta

„Það hefur verið rætt af opinberum aðilum innan stjórnsýslu Akureyrarbæjar við framkvæmdastjóra Þórs hvort það sé ekki góð lausn að Þór leggi niður handboltann. Ég sat sjálfur fund hjá opinberum aðilum innan stjórnsýslu Akureyrarbæjar þar sem handboltinn og aðstöðuvandinn var ræddur. 

En í stuttu máli, þá mun Þór aldrei leggja niður deild innan sinna raða á meðan fólkið þeirra og iðkendur eru tilbúin að halda úti deild. Það þarf ekki að ræða það frekar og allar óskir um slíkt á meðan starfskröftum mínum sem formanns handknattleiksdeildar Þórs er óskað frá félaginu, þá frábið ég mér allar slíkar óskir og bið um vinnufrið. En sameingarmál undir sameiginlegu merki eru alltaf opin fyrir umræðu.“

Ætlum að stækka deildina

Þórsarar ætla sem sagt ekki að draga saman seglin. „Þvert á móti ætlum við okkur að stækka deildina, við ætlum okkur að fá leiðréttingu okkar mála á æfinga- og keppnisaðstöðu og við ætlum okkur byggja upp handboltann í Þór, skref fyrir skref,“ segir Árni.

„Ég tel mig hafa útskýrt þörf félagsins á nýju íþróttahúsi nægjanlega oft, svo ég þurfi ekki að tíunda það frekar. En ég bið alla þá sem áhuga hafa á slíku að heyra í mér. Við Þórsarar sjáum ekki fyrir okkur risastórt hús í einhverjum framúrstefnulegum byggingarstíl sem líkist frekar geimskipi en íþróttamannvirki. Við erum að óska eftir aðstöðu til æfinga og keppni á sem skynsamlegastan, hagkvæmastan og nytsamlegastan hátt. Hér í bæ bráðvantar eitt íþróttahús og það þolir enga bið.“