Allt er hljóðfæri fyrir skapandi slagverksleikara

„Okkur langar að kynna slagverkstónlist fyrir Akureyringum, vegna þess að hún er svo miklu meira en margir halda,“ segir Matiss Leo Meckl. Hann er annar helmingur slagverksdúósins Puruñeka Duo, sem heldur tónleika í Black box í Hofi, fimmtudagskvöldið 7. ágúst kl. 20. Matiss er fæddur og uppalinn á Akureyri, og eftir að útskrifast frá Tónlistarskólanum á Akureyri, fór hann til Haag í Hollandi í framhaldsnám. Í skólanum kynntist hann Tirso Ortiz Garrigós frá Spáni, en með þeim tókst strax vinátta og áður en langt um liðið var dúóið fætt.
Tirso kom til Íslands í byrjun júlí, en þeir félagar hafa unnið saman hjá Saga travel í sumar, búið saman heima hjá Matiss á Eyrinni og æft sig fyrir tónleikana. Blaðamaður Akureyri.net hitti þessa ungu og efnilegu tónlistarmenn í blíðunni á Ráðhústorgi.
Matiss og Tirso eru bæði góðir vinir og náðu strax vel saman í tónlistinni líka. Mynd: aðsend
Spænsk-íslenskt slagverk komið til að vera
„Við erum á fyrsta ári í konunglega tónlistarskólanum í Haag [Royal Conservatory of The Hague], einu tveir nemendurnir á fyrsta ári í slagverksdeild,“ segir Matiss. Tirso kemur frá bænum Alboraia á Spáni, en hann er í nágrenni Valencia. „Það búa sirka jafn margir í heimabænum mínum, eins og á Akureyri. Eftir að læra í tónlistarskólanum heima, þá var mér ráðlagt að fara erlendist til þess að læra meira þar sem starfsmöguleikar fyrir atvinnutónlistarfólk heima eru ekki miklir,“ segir hann.
Ég held að ég geti sagt að þetta sé eitt besta sumar sem ég hef átt
Matiss stakk upp á því, við Tirso, hvort hann vildi ekki bara vera á Íslandi í sumar. „Það er búið að vera mjög gaman, ég held að ég geti sagt að þetta sé eitt besta sumar sem ég hef átt,“ segir Tirso. „Það er mikið að gera hjá okkur í vinnunni og við æfingar, en við höfum líka náð að skoða landið aðeins og ég elska að vera hérna.“
„Við erum svo lánsamir að fá að æfa í Tónlistarskólanum í Hofi í sumar, en gamli kennarinn minn er ennþá að kenna þar,“ segir Matiss. „Það er alveg ómetanlegt, aðstæður gætu eiginlega ekki verið betri.“
Það má búast við frumlegum atriðum á tónleikum drengjanna á fimmtudaginn. Myndir: aðsendar
Sjóndeildarhringurinn snarstækkaði í Haag
Tónleikarnir sem dúóið bjóða til á fimmtudagskvöldið bera heitið 'Rytmasögur'. „Við viljum sýna fólki hvað heimur slagverksins er fjölbreyttur,“ segir Matiss. „Ég var eiginlega eini slagverksleikarinn á Akureyri þegar ég var í tónlistarskólanum, og hafði því eiginlega ekki neinn til þess að vinna með. Slagverk sem slíkt var heldur ekki mjög vel þekkt, og draumurinn minn var að verða klassískur slagverksleikari í sinfóníuhljómsveit. En það hefur alveg galopnast eftir fyrsta árið mitt í Haag, við erum að kynnast svo mörgum leiðum sem hægt er að fara.“
„Ef þú segir einhverjum að þú sért slagverksleikari, þá heldur fólk yfirleitt að maður spili á trommur eða í sinfóníuhljómsveit,“ segir Tirso. „En þetta er svo miklu stærri heimur. Einn af kennurunum okkar er mjög tilraunaglaður, og hann hefur breikkað sjóndeildarhringinn fyrir okkur, þannig að við erum fullir af hugmyndum um það sem okkur langar að prófa.“
Spila á allskonar hluti
„Á tónleikunum okkar á fimmtudaginn verður til dæmis spilað á allskonar hljóðfæri,“ segir Matiss. „Bæði þessi hefðbundnu, en líka allskonar annað. Sumt fundum við í ruslinu! Það verða líka tónverk þar sem við spilum ekki á nein hljóðfæri, sem snúast bara um hreyfingu og líkamsslagverk [body percussion]. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta verði bæði áhugavert og skemmtilegt!“
Matiss og Tirso spiluðu tónleika í Deiglunni fyrir tveimur vikum síðan, þar sem þeir vöktu mikla athygli fyrir frumlega tóna. „Þar vorum við í samstarfi við sjónlistamanninn Þorstein Jakob Klemenzson, sem sýndi vídeolistaverk á veggnum fyrir aftan okkur á tónleikunum,“ segir Tirso. „Það var mjög skemmtilegt, en við erum mjög spenntir einmitt fyrir því að vinna með fólki þvert á listgreinar. Þegar skólaárið byrjar aftur í haust, verður til dæmis ein vika þar sem við verðum að vinna með dönsurum í NDT, Netherlands Dance Theater, og sköpum eitthvað með þeim. Það er mjög spennandi!“
Matiss og Tirso kynnast allskonar tónlist og hljóðfærum í náminu úti. Myndir: aðsendar
Spennandi vetur framundan hjá dúóinu
„Tónleikarnir í Deiglunni voru mjög í anda nútímatónlistar,“ segir Matiss, en meðal annars spiluðu þeir tónlist sem er frumsamin af Tirso. „Fólk hafði á orði við okkur eftir tónleikana að þau hefðu aldrei heyrt neitt svipað áður og fólk virtist mjög undrandi og áhugasamt um tónlistina.“
„Við erum mjög spenntir fyrir því að halda áfram í náminu, og erum með haug af hugmyndum um það sem við viljum gera,“ segir Matiss. „Við erum búnir að skipuleggja samstarf við fimm ung tónskáld sem voru að útskrifast úr skólanum okkar, um að semja fyrir okkur tónlist sem við ætlum að flytja á næsta ári. Vonandi getum við spilað fleiri tónleika á Íslandi þá!“
Hér er hlekkur á viðburðinn á heimasíðu Menningarfélagsins.
Tónleikar Puruñeka Duo á fimmtudaginn eru styrktir af VERÐANDI listsjóði.