Allt að 18 stiga hiti á Akureyri í dag

Veðrið lék við Eyfirðinga í gær eins og flesta landsmenn. Hiti fór yfir 20 stig og búast má við svipuðu veðri í dag og næstu daga. Veðurstofan spáir 18 stiga á Akureyri um kl. 15.00 í dag.
Gert er ráð fyrir suðlægum áttum, golu eða kalda og að víða verði léttskýjað og sólskin, „en sums staðar skýjað við sjávarsíðum og jafnvel þokuloft eða súld þar,“ segir á vef Veðurstofunnar snemma í morgun. „Áframhaldandi hlýindi, einkum í innsveitum norðan- og austantil, en hiti getur þar farið yfir 22 stig þegar best lætur,“ sagði á vef Veðurstofu Íslands snemma í morgun.
- Á fimmtudag – Suðlæg átt, víða 3-8 m/s, léttskýjað og hiti 16 til 22 stig, en suðaustan 8-13, lítilsháttar væta og hiti 10 til 16 stig vestantil.
- Á föstudag – Suðaustan 5-13 m/s suðvestantil, en annars hægviðri. Yfirleitt bjart, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan.
Síðan segir, um laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag: Hæg suðaustlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við sjávarsíðuna. Áfram hlýtt í veðri, einkum inn til landsins.