Fara í efni
Mannlíf

ÁLFkonur takast á við ljós og skugga

ÁLFkonur hengdu myndir sínar upp í Lystigarðinum síðdegis í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

ÁLFkonur, hópur kvenna með ljósmyndun að áhugamáli, opna sýningu í Lystigarðinum á Akureyri í dag klukkan 14.00.

Þetta er í 11. skipti sem hópurinn heldur sýningu í þessum unaðsreit Akureyringa. ÁLFkonur – áhugaljósmyndarafélag fyrir konur – bjóða til sýningarinnar í samvinnu við Lystigarðinn og LYST kaffihús og eru myndirnar til sýnis við kaffihúsið. Sýningin stendur allt til vors 2023.

„Að þessu sinni takast konurnar á við birtuskil ljóss og skugga og úr verða leyndardómsfullar og skuggalegar ljósmyndir,“ segir í tilkynningu frá hópnum. Þar segir einnig: „Við erum búsettar á Akureyri og í Eyjafirði og höfum starfað saman sem hópur frá sumri 2010. Við höfum haldið 31 ljósmyndasýningu víða um Akureyri, Eyjafjörð og í Portobello, útborg Edinborg í Skotlandi.“

Þátttakendur í sýningunni í ár eru, Agnes Heiða Skúladóttir, Berglind H. Helgadóttir, Gunnlaug Friðriksdóttir, Guðný Pálína Sæmundsdóttir, Halla S. Gunnlaugsdóttir, Helga H. Gunnlaugsdóttir, Hafdís G. Pálsdóttir, Helga Haraldsdóttir, Hrefna Harðardóttir, Inga Dagný Eydal, Kristjana Agnarsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Linda Ólafsdóttir og Margrét Elfa Jónsdóttir.

Lystigarðurinn er opinn frá klukkan 8.00 til 22.00 á virkum dögum og klukkan 9.00 til 22.00 um helgar. Aðgangur að sýningunni er vitaskuld ókeypis og allir velkomnir.

Álfkonur á Facebook

Álfkonur á Instagram