Fara í efni
Mannlíf

Aldrei séð jafn mikið af berjum og nú

Guðrún Guðmundsdóttir, garðyrkjukona og húsmóðir á Halllandi 2, í berjamó fyrr í dag. Ljósmynd: Skap…
Guðrún Guðmundsdóttir, garðyrkjukona og húsmóðir á Halllandi 2, í berjamó fyrr í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Guðrún Guðmundsdóttir garðyrkjukona og húsmóðir á Halllandi 2 í Svalbarðsstrandarhreppi er mjög ánægð með berjasprettuna í ár. Mikið virðist um ber hvarvetna í Eyjafirði því margir hafa sömu sögu að segja.

„Ég hef aldrei séð svona mikið af berjum eins og núna. Held að almennt sé mjög góð spretta. Misjafnt eftir stöðum hvað berin eru stór, en hér og upp um alla Vaðlaheiði eru stór og mikil ber. Bara alveg haugur á hverju lyngi!“ segir Guðrún við Akureyri.net

Guðrún segir að berin í ár séu stór og bragðgóð, nema lyngið sé ofan í grasi. Þá fá berin ekki eins mikla sól og sætan í þeim verður minni. Vorið skiptir líka máli. „Ef það koma frostanætur eftir að sætukopparnir eru komnir þá verður sprettan auðvitað ekki góð en þegar frysti í vor, voru sætukopparnir ekki lifnaðir.“ Hún bætir við að þurrkarnir hafi ekki haft nein áhrif á berin – nema þá góð.

Algjörlega ómissandi

Guðrúnu finnst algjörlega ómissandi að fara til berja. Að vera ein með hugsunum sínum úti í náttúrunni. Hún hefur með sér vatn í flösku til að dreypa á og eyðir löngum stundum í móunum. Hún tínir aðallega bláber og hrútaber en minna af krækiberjum. Auk þess rifsberin heima í garði. Það hefur heldur aldrei verið eins mikið af þeim og nú. „Ég gæti verið í þessu allan daginn sko. En ég hef ekkert með öll þessi ber að gera. Núna tíni ég til að gefa.“

Að lokum segir Guðrún um berin og blíðviðrið:

„Ég var að tína ber upp á mýrum. Ég lá á hliðinni og nánast sópaði berjunum í fötuna. Það var líka svo heitt að maður var alveg að steikjast. Ef einhver hefði átt leið hjá hefði sá hinn sami ábyggilega haldið að ég væri dauð! Mér hefur aldrei verið svona heitt í berjamó!“

Guðrún var í vel bláum mó í dag, eins og  hér má sjá.