Fara í efni
Íþróttir

Aldís Ásta til Skara HF í Svíþjóð

Aldís Ásta Heimisdóttir skorar af harðfylgi gegn Val. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handboltakonan Aldís Ásta Heimisdóttir, lykilmaður hjá KA/Þór síðustu ár, er á leið til Svíþjóðar. Hún hefur samið til tveggja ára við Skara HF, sem leikur í  efstu deild, Svensk handbollselit (SHE).

Aldís, sem fékk fyrsta tækifærið með A-landsliði Íslands í vetur, er 23 ára og hefur leikið með KA/Þórs alla tíð. 

„Það var umboðsmaður sem hafði samband við mig í lok maí eða byrjun júní og sagði mér að lið í Svíþjóð hefði áhuga á að fá mig. Ég hugsaði mig vel um og ákvað svo að skella mér út,“ sagði Aldís Ásta við Akureyri.net. Hún þekkir ekkert til liðsins nema hvað það varð um miðja deild á nýliðnu keppnistímabil. „Nei, ekki neitt. Ég er bara að henda mér í djúpu laugina!“ sagði hún.

Skara er frá samnefndnum bæ, álíka fjölmennum og Akureyri. Bærinn er um 120 kílómetra norðaustur af Gautaborg.

KA/Þór hefur orðið fyrir töluverðri blóðtóku eftir nýliðið keppnistímabil. Örvhenti hornamaðurinn Rakel Sara Elvarsdóttir hefur samið við Volda í Noregi og markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir við svissneska liðið GC Amicitia í Zürich.