Fara í efni
Menning

Norðlensk Sól vann silfur í píanókeppni WPTA

Sól Björnsdóttir leikur á flygilinn í Salnum í Kópavogi á laugardaginn. Mynd: WPTA

Sól Björnsdóttir, 14 ára píanóleikari, varð í gær í öðru sæti í fyrstu alþjóðlegu píanókeppni WPTA (World Piano Teachers Association) sem haldin er hér á landi. Lokaúrslit nemenda sem sköruðu fram úr fóru fram á laugardag í Salnum í Kópavogi en úrslit tilkynnt í gær. Dómnefnd var skipuð bæði innlendum og erlendum dómurum og tók sér sólahring til að gera upp hug sinn. 

Keppnin var haldin af Félagi íslenskra píanóleikara, þeim Peter Máté, Ernu Völu Arnardóttur og Nínu Margréti Grímsdóttur undir merkjum WPTA Iceland IPC 2025. Í flokki Sólar – 10-14 ára píanóleikara – varð Matvii Levscehenko hlutskarpastur en Alex Paulsson varð þriðji.

Sól fæddist á Akureyri og ólst þar upp til 11 ára aldurs. Hún vakti snemma athygli vegna hæfileika og hefur unnið til viðurkenninga og komið fram með kammersveitum víða um land svo sitthvað sé nefnt. Hefur ekki síst túlkun hennar á píanóperlum klassískrar tónlistar vakið athygli út fyrir landsteinana. Hún hefur einkum notið handleiðslu tveggja píanókennarakennara til þessa. Svo skemmtilega vill til að báðir eru norðlenskir. Núverandi kennari Sólar er Eyfirðingurinn Kristinn Örn Kristinsson en Lidia Kolosowska píanókennari við Tónlistarskólann á Akureyri kenndi Sól fyrstu sex árin. Sól flutti suður með fjölskyldu sinni fyrir fjórum árum og tók þá Kristinn Örn við handleiðslu þessarar efnisstúlku.


Sól stundar nú nám við Menntaskóla í tónlist á framhaldsstigi og hefur að sögn lengi stefnt á atvinnumennsku í tónlist. Sól gat ekki tekið við verðlaununum sjálf þar sem hún hélt utan í gærmorgun og er nú í æfingabúðum tónlistarfólks í Englandi. Foreldrar Sólar eru dr. Arndís Bergsdóttir og Björn Þorláksson rithöfundur og blaðamaður.