Akureyri: Meðalhiti í maí langt yfir meti

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Bliku upplýsir í dag að meðalhiti í maímánuði á Akureyri sé nú 10,7 gráður, langt yfir fyrri tölum sem ná alveg aftur til 1881.
Einar bendir á að mánuðurinn sé vissulega ekki búinn og spyrja þurfi að leikslokum, eins og alltaf. Hlýindin séu hins vegar ekki yfirstaðin, ekki sé að sjá reiknaði meðalhitinn lækki nokkuð að ráði til 26. maí „og verði líklega þá enn um heilu stigi yfir gamla metinu,“ segir hann.
Pistill Einars á vef Bliku er svohljóðandi í heild:
Eftir því sem ég kemst næst er hæsti meðalhiti maí á íslenskri veðurstöð 9,5°C. Mældist í tvígang á fjórða áratug síðustu aldar. Og síðan aftur 1946. Í tvö skipti á Sámsstöðum í Fljótshlíð, en á Akureyri 1933.
Talan þar hefur reyndar verið endurreiknuð niður um 0,1 stig. En hvað um það, athygli vekur að á síðustu árum hefur hitinn í maí ekki verið að gera neinar séstakar rósir á Akureyri. Nema kannski 2017 þegar hann mældst 8,4°C.
Nú stendur það hins vegar þannig af sér að eftir 20 fyrstu daga mánaðarins reiknast meðalhitinn á Akureyri heilar 10,7°C. Þetta er langt yfir fyrri tölum sem ná alveg aftur til 1882.
Myndskreyting sem Einar Sveinbjörnsson birti með umfjölluninni.
En mánuðurinn er vissulega ekki búinn, þriðungur hans er eftir og rétt eins og alltaf þarf að spyrja að leikslokum!
Hins vegar eru hlýindin ekki alveg yfirstaðin og þó svo að veðrið taki nokkrum breytingumÍ í lok vikunnar, verður engu að S- og SA-átt og fremur hlýtt fyrir norðan. Til 26. maí er ekki að sjá að reiknaði meðalhiti (um 10,7°C) lækki nokkuð að ráði og verði líklega þá enn um heilu stigi yfir gamla metinu.
Hastarlegt kuldakast í blálok mánaðarins myndi gera út af við þessar vangaveltur um nýtt mánaðarmet hita á Íslandi. Langtímspár gera hins vegar ekki ráð fyrir neinum afgerandi breytingum í kuldaátt. Ekkert þó gefið þeim efnum!
En þó hér sé miðað við 1933 á Akureyri er það engu að síður maí 1935 sem álitinn er sá hlýjasti á landsvísu í sögu mælinga.
Hér má lesa umfjöllun Sigurðar Þórs Guðjónssonar frá því fyrir nokkrum árum um hlýjustu maí-mánuðina
_ _ _
Athygli skal vakin á því að veðurvefurinn Blika er beintengdur Akureyri.net er. Smellið á myndina hér að neðan til að fara á Bliku.