Fara í efni
Fréttir

Akureyri í evrópskri 12 staða samgönguáskorun

Tvö góð dæmi um vistvænar samgöngur: rafhlaupahjól og reiðhjól, hvort sem það er hlaðið rafmagni eða knúið af ferðalangnum sjálfum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyrarbær og Vistorka eru í sameiningu þátttakendur í evrópsku verkefni á vegum EIT Urban Mobility – hvataverkefni varðandi vistvænar samgöngur í þéttbýli – þar sem fram fer eins konar samkeppni um lausnir sem miða að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.

  • Skráðir einkabílar á hverja 100 íbúa eru 70% fleiri á Akureyri en að meðaltali innan ESB.
  • Akureyringar fara flestra sinna ferða á einkabílnum, sbr. ferðavenjukönnun frá 2020.
  • Áskorunin sem Akureyri leggur til snýst um hagræðingu og samþættingu almenningssamgangna og örflæðis (notkun léttra farartækja).
  • Verkefnið snýst um að byggja upp innviði i bænum svo einstaklingar eigi auðveldara með að leggja einkabílnum.

Verkefnið tengist mjög umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar 2022-2030, en þar er lögð mikil áhersla á breyttar ferðavenjur.

Happafengur fyrir Akureyringa

Katla Eiríksdóttir, verkefnastjóri hjá Vistorku, segir það mikinn happafeng fyrir Akureyri að fá boð um að taka þátt í þessu verkefni þar sem sprotafyrirtæki um alla Evrópu geta lagt til lausn við áskoruninni sem sett er fram fyrir hönd Akureyrar. „Það þarf nefnilega ekki alltaf að finna upp hjólið og mikilvægt að styrkja samband okkar við erlenda aðila til að læra af öðrum. Verkefnið tengir Akureyri einnig við hina bæina/borgirnar sem taka þátt í ár,“ segir Katla. Að auki fái Akureyringar aðgang af reynslusögum þátttakenda fyrri ára.

„Aðaláherslan er á að byggja upp innviði sem ýta undir það að einstaklingar geti nýtt sér aðra ferðamáta en einkabílinn. Þetta tengist auðvitað líka orkuskiptum í samgöngum, þar sem í grunninn þarf að breyta ferðavenjum til að ná þeim markmiðum,“ segir Katla.

Verkefnið er á byrjunarstigi og hafa frumkvöðlar og sprotafyrirtæki frest til 6. maí til að sækja um með sinni lausn, en þá tekur við tímabil þar sem lausnirnar eru metnar og að lokum verður besta lausnin valin í haust. „Sprotafyrirtækið sem stendur uppi sem sigurvegari mun svo þróa lausnina með Akureyrarbæ og að lokum koma hingað í viku og prófa lausnina. Það eru því virkilega spennandi tímar fram undan,“ segir Katla.

Samþætting almenningssamgangna og örflæðis

Í frétt á vef Akureyrarbæjar kemur fram að verkefnið gangi út á að borgir og bæir í Evrópu setji fram áskorun sem staðið er frammi fyrir þegar kemur að vistvænum samgöngum. Áskorun Akureyrar tengist hagræðingu og samþættingu almenningssamgangna og örflæðis, eins og það er kallað. Með örflæði er átt við „létt farartæki undir 500 kg sem eru ætluð fyrir stuttar ferðir í þéttbýli og fara ekki hraðar en 25 km/klst.“

Hér er að sögn Kötlu vísað til hvers kyns farartækja sem hægt er að nota í styttri ferðir innan þéttbýlis og fara yfirleitt ekki hraðar en 25 km/klst. Þetta getur átt við hvers kyns farartæki eins og reiðhjól, rafhjól, hlaupahjól, rafskútur, hjól fyrir vöruflutninga, hjólabretti og aðrar gerðir hjóla að sögn Kötlu. (Sjá mynd).

Setja fram eigin samgönguáskorun

Tólf þéttbýlisstaðir í Evrópu eru þátttakendur í verkefninu. Hver staður setur fram sína eigin samgönguáskorun og fá sprotafyrirtæki tækifæri til að taka þátt í verkefninu með sínum lausnum með því að sækja um þá borgaráskorun sem hentar viðkomandi lausn. Áskorun Akureyrarbæjar er í stuttu máli að finna út hvernig hægt sé að ná fram sem skilvirkastri samþættingu á milli almenningssamgangna og örflæðis.

Áskorun Akureyrarbæjar á raptorproject.eu (á ensku).

Katla segir aðspurð að erfiðasta áskorunin fyrir Akureyringa þegar tekist er á við þetta verkefni sé mögulega hugsunarhátturinn. „Akureyri er í raun hinn fullkomni kortersbær, en það er hægt að hjóla bæinn nánast endilangan á aðeins 15 mínútum. Vistorka og Orkusetur hönnuðu vefsíðu og app sem sýnir myndrænt hversu langt er hægt að komast á korteri. En þó að þessi fína vefsíða og app hafi verið gefin út er bílaumferð um bæinn því miður enn mikil. Því er mjög mikilvægt að innviðir séu til staðar sem styðja við vistvænar ferðavenjur sem geta auðveldað bæjarbúum að leggja einkabílnum. Það er það sem þetta verkefni snýst um,“ segir Katla.

Vefsíðan sem vísar á korterið: https://korter.vistorka.is/#/

Yfirburðir einkabílsins

Einkabíllinn hefur löngum verið uppáhald Akureyringa eins og glöggt má sjá í fjölda skráðra einkabíla. Hlutfall einkabíla miðað við íbúafjölda er hærra á Akureyri en gengur og gerist víða í Evrópu og 70% hærra en meðaltalið innan ESB. Á Akureyri voru á árinu 2022 skráðir 85 bílar á hverja 100 íbúa, en meðaltalið innan ESB er 50 bílar að því er fram kemur í áðurnefndri frétt á vef Akureyrarbæjar.

„Því þarf að finna og innleiða nýjar lausnir til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Ein lausnin getur verið aukin samþætting á almenningssamgöngum og örflæði til að auðvelda bæjarbúum að leggja einkabílnum og velja sér vistvænni ferðamáta,“ segir í fréttinni.

Með hliðsjón af ferðavenjum Akureyringa og fjölda skráðra einkabíla má því ef til vill álykta sem svo að erfiðasta áskorunin fyrir íbúana sjálfa sé hugarfarsbreyting á meðan stjórnkerfið tekst á við þetta verkefni og fleiri til að auðvelda íbúunum að nýta vistvænni samgöngumáta en algengastur er í dag.